Saga af villihænu og flökkuketti

Ætli það sé vegna kólnandi veðurs? Altént er það á þessum tíma árs sem stundum verður dálítið um skemmtilega lífræna umferð hérna í -- ja, hvað? Sveitarbænum? Bæjarsveitinni? Hvað á maður að kalla sveitarfélag sem er bær en samt að fullt eins mikil sveit?

Hérna um daginn meðan ég var með hita og fannst ég vera afskaplega lasinn varð mér eitt sinn sem oftar litið út um glugga og sá -- brúna hænu vaga með hægð hér inn á næstu lóð, róta eins og hænsna er siður fyrst þrisvar með annarri löppinni og síðan þrisvar með hinni og kanna svo með goggnum hvort eitthvað ætt hefði rótast upp. Eins og allir vita eru hænur ekki villifuglar og um huga minn flaug að hún frænka mín hér í næsta húsi myndi seint hafa fengið sér hænu. En þessi fugl var glettilega líkur hænu og ég ákvað að festa fyrirbærið á heimildarmynd.  Greip næstu myndavél -- en þá var púdd púdd horfin.

Hvað var þetta? Ofsjón? Hvaða fugl getur verið svona líkur brúnni hænu?

Fáum dögum seinna sá ég út um sama glugga að pútan brúna kjagaði eftir girðingunni hér milli lóðanna. Nú var myndavélin tilbúin og ég snaraðist út. Sú brúna var þó ekki á því að sitja fyrir heldur flaug -- já, hænan flaug eins og fugl! hátt upp í næsta tré og settist þar á grein.

2007_1014Þöllogbangsi0001Ég held það hafi verið þennan sama dag að það upplýstist hvaðan hún kom og feðgar tveir frá þeim bæ komu að vitja pútu sinnar. En hún flaug milli trjáa og lét ekki ná sér. Hún er enn hér á þessum slóðum og situr gjarnan hátt uppi í þessu tré sem hún fór í fyrst og virðist hafa dálæti á. Hún er mjög vör um sig og auk þess hefur hún þann sjaldgæfa hæfileika að hverfa eins og Skreppur seiðkarl (man einhver eftir honum?) þegar hún er á jörðu niðri og einhver lætur sér detta í hug að reyna að grípa hana.

Á sunnudaginn var hún að vafra hér fyrir ofan hús með sinni hænulegu varfærni og rósemi þegar við dóttir mín sáum að nú horfði til ævintýris: gulur köttur var kominn í spilið og hafði tekið mið á hænuna, bældi sig niður og bjóst til að stökkva á hana. Sennilega hefði ég ekkert átt að skipta mér af en gerði það samt, rauk út og hvæsti og kisi forðaði sér skelfdur en hænan -- hvarf! Hún líkamnaðist að vísu aftur þennan sama dag og við sjáum hana af og til, svo á jörðu niðri sem uppi í tré, alltaf sama trénu.

En kisi sást hér af og til á mánudag og þriðjudag. Undir kvöld á þriðjudag beinlínis kvaddi hann dyra á stofunni og mjálmaði ámátlega. Maður á ekki að hleypa ókunnugum köttum að sér og venja þá þar með að heiman, þeir eiga að vera heima hjá sér og þessi var þó altént með blátt hálsband. Ég klóraði honum aðeins ofan í krúnuna, það þykir flestum köttum gott, skýrði fyrir honum málin og skipaði honum að fara heim.

Morguninn eftir var hann aftur kominn á stofudyrnar og bar sig mjög aumlega. Ég og við hér í húsi eigum voðalega erfitt með að horfa í hina áttina þegar köttur leitar ásjár hjá okkur og ber sig aumlega. Ég tók hann inn. Hann var kaldur og kviðsloppinn og skalf en var prúður. Ég hellti handa honum vatni í skál. Það þótti honum þunnar trakteringar. Var hann svangur? Ég átti ekkert handa ketti. En ein kisan sem við áttum meðan við vorum með dýr vissi fátt betra en lungann úr brauðsneið. Ég prófaði það á gesti mínum en þetta var ekki matur. Ég hellti vatninu úr skálinni og setti mjólk í staðinn. Þetta var nú eitthvað annað. Kisi lapti og lapti svo gusurnar stóðu út á gólf. Ég prófaði að setja brauð út í ef hann vildi það frekar mjólkurvætt og það vildi hann. Þrjár skálar fullar af mjólk og heila brauðsneið áður en hann hvarf frá, kominn með kisulegan kúlubelg.

2007_1017kisi008Eftir að hafa kannað húsið valdi hann sér góðan stól með mjúkri sessu. Ef þið eruð í vafa um hvar best er að hreiðra um sig í húsi skuluð þið fá kött og sjá hvar hann kemur sér fyrir. Það er besti staðurinn. Upphófst nú ritúal kattar sem er hlýtt og hefur fengið fylli sína, þvottur í bak og fyrir og ef einhver heldur að kattarþvottur sé einhver kattarþvottur hefur sá sami aldrei horft á kött sem hefur sopið einhverjar fjörur en telur sér nú borgið eftir harðréttið. Þegar ég strauk honum malaði hann eins og -- já, eins og saddur köttur! -- en vildi helst láta klóra sér, ofan í krúnuna og á kviðnum. Svo sofnaði hann eins og steinn.

Hann hefur verið hér af og til síðan. Ef hann á heima í grenndinni er hann amk. villtur og ratar ekki heim. Eða vill ekki fara heim. Hjón sem eiga heima hér skammt frá sem höfðu týnt ketti sínum komu að skoða hann en þá hafði hann brugðið sér út að pissa og eftir mynda að dæma var þessi var ekki nógu grár handa þeim. Við höfum löngum haldið ketti og höfum dálæti á þeirri dýrategund, en um þessar mundir hentar okkur ekki að vera með kött. Þannig að ef hann finnur ekki sitt rétta fólk fljótlega verðum við að láta hjálpa honum inn á hinar eilífu veiðilendur. Þó hann sé fallegur. Þó hann sé kurteis og prúður. Því Kattholt vill hann ekki.

Þannig er lífið. Það endar bara á einn veg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Hreint ótrúleg saga þetta með hænsnfuglinn. Ég ólst upp í sveit með hænum og öðrum furðufuglum, fleygum og ófleygum. En hefði ég sé hænu sitja á grein uppi í tré.. tja ætli ég hefði ekki byrjað á að hætta að drekka og athuga hvort ofsjónirnar hættu ekki.

Að ná mynd af henni þarna er einstakt. Það liggur við að ég bíði eftir að þú skrifir aftur glottandi yfir trúgirninni og viðurkennir að þér hafði bara leiðst í veikindunum og ákveðið að leika þér svolítið með myndaforritið.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 19.10.2007 kl. 11:48

2 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Ó, Skreppur Seiðkarl, mitt allra tíma uppáhald! Ég vitna ennþá í hann hann og jafnvel leik hann fyrir krakkana þegar þannig liggur á mér. Það gerir víst ekki annað en fullvissa þau enn frekar um að mamma þeirra sé ekki eins og fólk er flest.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 19.10.2007 kl. 12:04

3 Smámynd: Elías Halldór Ágústsson

http://en.wikipedia.org/wiki/Catweazle

Elías Halldór Ágústsson, 19.10.2007 kl. 12:09

4 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Með leyfi, Helga Guðrún, hve snemma byrjaðir þú að drekka? Og -- þetta er allt satt og rétt og engin brögð í tafli. Nema kannski hjá hænunni -- hvernig fer hún að því að gera sig ósýnilega nánast fyrir augunum á manni?

Elías -- brá mér inn á wikipedíu eftir þinni fyrirsögn og heilsaði upp á karlinn…

Sigurður Hreiðar, 19.10.2007 kl. 12:46

5 identicon

Án þess að ég vilji skemma dulúðina sem sveipar flughænuna, né gera lítið úr samanburðinum við seiðkarlinn, þá fylgdist ég með henni á meðan hr Auto fór út að hræða kisa. Hún notaði fæturna á flóttanum, en ég er ekki viss um að ég hafi séð annað dýr hlaupa jafn hratt, miðað við stærð og massa og allt það. Minnti mig hvað helst á sprettharða krabbakónguló, ef að það segir eitthvað. Mig grunar að þessi hæna sé stökkbreytt...

Véfréttin (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 13:59

6 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Ætli það hafi ekki verið á svipuðu aldursskeiði og jafnaldrar mínir í Vallhólminum; svona fljótlega uppúr messuvíni. En aldrei það ótæpilega að ég sæi hænu sitja á grein. Það vantar ekkert nema þú segðist hafa komið auga á hreiðrið hennar þegar þú zoomaðir hærra í tréð hahaha. Mér hefði ekki dottið í hug að taka þig alvarlega nema hafa sé þessa frábæru mynd sem þú náðir af þessum íslenska FFH. Mér fannst þetta svo skemmtileg lesning og alveg bráðfyndin. Reddar helginni, eins og unglingarnir segja.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 19.10.2007 kl. 14:57

7 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Svo var verið að efast um að okkur systkinum gæti tekist að kenna hænunum að fljúga -  þetta sannar að lítil börn geta vel haft rétt fyrir sér

Helga R. Einarsdóttir, 19.10.2007 kl. 16:51

8 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ekki rengi ég véfréttina dóttur mína -- og hefði hennar fránu sjónar ekki notið við er ég ekki viss um að pútan hefði verið jafn fljót að líkamnast þarna á dögunum.

Og, Helga R, voruð þið systkinin ekki bara með of ung hænsni? Eða vitlausa tegund? -- Þessi brúna er örugglega af flughænsnategund…

Sigurður Hreiðar, 19.10.2007 kl. 18:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband