17.10.2007 | 12:35
7 þúsund óþörf útköll?
Sviðið: Gatnamót Stórholts og Þverholts í Reykjavík. Tími: fyrir ca. 10-12 árum. -- Ung stúlka kemur akandi norður Þverholtið og hyggst beygja til vinstri inn á Stórholt. Í sama bili kemur miðaldra maður akandi upp Stórholtið og tekur megnið af framenda bíls stúlkunnar með sér, framan á sínum bíl.
Hún: stígur út úr flakinu, grátandi, horfir á ósköpin og kjökrar: bíllinn hennar ömmu minnar!
Hann, stöðvar nokkru ofar við Stórholtið, gengur til baka og horfir með rembingi á stúlkuna, segir: Hvert varst þú að horfa, stúlka mín?
Svo vildi til að vinnufélagar tveir stóðu þarna á götuhorninu og fylgdust með atburðarásinni. Þegar hér var komið sögu gekk annar þeirra til stúlkunnar, tók um olnboga hennar og tilkynnti henni að amma myndi fá þetta bætt, því hún væri í 100% rétti. Þarna gildir aðeins almennur umferðarréttur og ber að víkja (bíða) fyrir umferð sem kemur frá hægri.
Upphófst nú nokkur snerra því maðurinn sem kunni ekki umferðarreglurnar ætlaði ekki að gefa sig með það að hann væri í rétti, stúlkan hefði ekið í veg fyrir hann (sem tæknilega séð var rétt, ekki umferðarréttarlega séð). En sátt náðist um að gerð yrði skýrsla um umferðaróhapp á þar til gert eyðublað sem auðvitað var í hanskahólfi í bílnum hennar ömmu -- í bíl karlmannsins sýndist flest í nokkrum ólestri. Áðurnefndir tveir vinnufélagar skildu ekki við málsaðila fyrr en skýrslan var fullgerð að því marki sem báðir þurfa að gera hana og veitti ekki af, karlmaðurinn reyndi hvað eftir annað að sveigja málin sér í hag þrátt fyrir betri vitund. Stúlkan, rétt um tvítugt á að giska, var bara aum og lítil og hefði hjálparlaust ekki haft roð við mótaðila sínum í þessari harmsögu.
Svo var bíl ömmu ýtt í stæði þaðan sem hann hvarf síðar um daginn og lífið hélt áfram sinn vanagang.
Hví er ég að rifja þetta smámál upp hér? Jú, blað 24 stunda var í gær að væla yfir 7 þúsund óþörfum útköllum lögreglunnar vegna svona mála.
Er ekki full ástæða til að setja spurningarmerki við hvort útköllin séu óþörf? T.d. þegar í hlut eiga óhörðnuð börn um tvítugt og skrápharðir karlar helmingi eldri eða meir?
Þar fyrir utan treystir fólk ekki tryggingafélögunum til að meta tjónaskýrslur með velvild.
Auðvitað eiga tjónaskýrslur að vera í hverjum bíl. Auðvitað eiga þeir sem rekast á án þess að slasast að fylla út sínar skýrslur og leggja sig fram um að gera þær af hlutlægni.
En ég ráðlegg þeim sem í þessu lenda að þverskallast við að færa viðkomandi ökutæki úr stað fyrr en búið er að færa afstöðu þeirra inn á tjónaskýrsluna -- jafnvel þó þau tefji fyrir annarri umferð á meðan. Það er ótrúlegt hvað menn reyna að þverskallast og snúa upp á málin, einkum ef þeir finna sig hafa í fullu tré við mótaðilann.
Það er ekki síst þess vegna sem fólk leitar hjálpar lögreglu í þessum efnum. Og lögreglan er bara ekkert of góð til að liðsinna að þessu leyti. Hvort sem það stendur nákvæmlega tilgreint í umferðarlögum eða ekki er lögreglan til þess að hjálpa fólki og greiða götu þess.
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (26.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Alveg sammála. Og þarna gerðu þeir vinnufélagarnir góða gustuk. Óvíst er, og ólíklegt jafnvel, að unga stúlkan og amma hennar hefðu fengið eyri í bætur fyrir bílinn, og sennilega endað með að þurfa að bera skaða karlófétisins ofan á sinn eigin, ef ekki hefði komið til aðstoð og almennilegheit þeirra félaga.
Þetta minnir mig á litla sögu af sjálfri mér uppúr tvítugt og nýlega komin til borgarinnar stóru. Ég var að bíða eftir skoðun fyrir bílinn minn á nýju, flottu skoðunarstöðinni uppá Höfða. Þar sem ég sat í bílstjórasætinu og beið eftir að röðin kæmi að mér, þá kemur bíll bakkandi út úr einu dyragininu. Hann bakkaði nokkuð rösklega í áttina að mér, en þar sem ég var í biðstæði sem mér hafði verið bent á að leggja, þá hugsaði ég að ég gæti varla verið fyrir honum. En nú setti bakkarinn allt í botn og hætti ekki fyrr en hann var búinn að strauja hliðina úr bílum hjá mér með tilheyrandi brothljóðum og málmbraki. Ég sá að skoðunarmennirnir, sem staðið höfðu opinmynntir álengdar, komu á harðaspretti og rétt náðu að stöðva ökumanninn í þann mund er hann setti í framgír (örugglega ekki fyrsta) og gaf allt í botn, ennþá fastur í mínum bíl með stuðarana krækta farþegameginn að aftan. "Hvað varstu að hugsa, maður?!", hvein í einum þeirra um leið og hann reif upp bílstjórahurðina hjá bakkaranum, "það er ekkert nema pláss beggja vegna við og þú æðir inní eina bílinn á svæðinu, í stæði í þokkabót!". Í því að ég steig útúr bílnum mínum til að kanna skemmdirnar, þá sé ég bílstjórann í árásardrossíunni staulast út úr sínum. Hann reyndist vera 96 ára gamall, með heyrnartæki í eyrunum og kókflöskugleraugu á nefinu. Skoðunarmennirnir höfðu verið að ræða það sín á milli hvort þeir ættu að sleppa honum út með bílinn, því þótt hann hefði sloppið við rauðan miða þá var þeim ljóst að sá gamli hvorki sá né heyrði. Enda kom hann af fjöllum við spurningar mannanna, og "hafði ekki orðið var við að hafa rekist utaní neitt". Þegar starfsmennirnir höfðu hjálpað mér við að fylla út tjónapappírana, ákváðu þeir að ekki væri verjandi að hleypa þeim gamla einum heim, og alls ekki akandi. Hann virtist líka hálf utan við sig eftir allt þetta aukavesen, og sagðist ekki muna símann hjá sonardóttur sinni sem hann byggi hjá í Hlíðunum. Snéri sér svo að mér og spurði: "Gætirðu nokkuð keyrt mig heim, gæskan góð? Ég skal segja þér til og vísa veginn". Þá skelltu allir uppúr, og auðvitað kom ekki annað til greina en að ég æki gamla manninn heim til sín. Þar kvöddumst við með handabandi og hlýjum kveðjum og ég sá hann aldrei aftur á ferðinni. Vona bara að hann hafi hætt að keyra, blessaður kallinn.
Helga Guðrún Eiríksdóttir, 17.10.2007 kl. 19:57
Já það eru kostulegar sögurnar sem rifja má upp.
Hér er ein í sarpinn:
Fyrir 30 árum ók Mosi leigubíl og var oft vestur við Flugfélag að bíða eftir farþegum að aka með. Þar var oft á tíðum einn af eldri leigubílstjórunum á mjög stórri amerískri grárri drossíu. Hann var farinn að sjá fremur illa og til marks um það þegar hann ók Suðurgötuna ók hann gjarnan á miðri götunni eftir hvítu strikunum sem aðgreindu akreinarnar. Einu sinni var gamli maðurinn að bakka við Flugfélagið ósköp hægt og varlega á stóra sjálfskipta bílnum sínum. Allt í einu rekst hann á bíl sem annar gamall maður ók þar nærri. Svo furðulega sem það nú atvikaðist voru báðir tveir fljótir að koma sér í burtu enda hafa þeir talið blessaðir karlarnir að betra væri að láta sig hverfa af staðnum í stað þess að hvíthúfumennirnir alkunnu væru látnir blanda sér í málið. Ökuleyfið var þeim meira virði en nokkrar beyglur!
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 17.10.2007 kl. 20:52
Minnir mig á atvik þar sem maður á norðurleið, sem beið eftir grænu ljósi á mótum Háaleitisbrautar og Fellsmúla, ók af stað og beygði til vinstri áleiðis inn í Safamýri en fór þá beint í veg fyrir bíl sem kom úr gagnstæðri átt eftir Háaleitisbraut og ætlaði beint áfram.
Áreksturinn varð mjög harður en karlinn sem beygði í veg fyrir hinn bílinn, kom út úr bílnum, gekk beint til mín og sagði: "Þú berð vitni, þú sást að ég var á grænu ljósi og var í rétti."
Það tók mig ótrúlega langan tíma til þess að koma þeim skilaboðum til hans að hinn bíllinn hefði líka verið á grænu ljósi, - þarna væri venjulegt grænt ljós en ekki beygjuljós, og að hann ætti því alla sök á árekstrinum.
Hann var ekki búinn að ná þessu þegar ég varð að fara af vettvangi eftir að hafa gefið lögreglu upp nafn og heimilisfang mitt og ég undraðist hvernig svona gamall maður (miðaldra) gæti verið jafn illa að sér í umferðarreglum.
Það var ekki kallað eftir vitnisburði mínum og þess vegna er líklegt að aðrir en ég hafi getað kennt þessum manni umferðarreglurnar, þótt það væri of seint í þessu tilviki.
Ómar Ragnarsson, 17.10.2007 kl. 22:37
Er það nema von að ég vilji að löggan sé innan handar með að gera sisvona skýrslur?
Helga Guðrún -- varstu nokkuð vísvitandi að lýsa mér? Með heyrnartæki (þegar ég nenni að hafa þau) og gleraugu (sem ég hef haft síðan ég var 9 ára).
Og Anna: ég veit dæmi þess í árekstri eins og þú lýsir að sá sem bakkaði á ósýnilegu smápútuna notaði tækifærið til að snúa málunum sér í hag!
Sigurður Hreiðar, 18.10.2007 kl. 15:25
Hélt að þetta væri hluti að vinnu lögreglu!! sem betur fer 7-9-13 hef ég átt lánsaman feril sem ökumaður
Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 18.10.2007 kl. 18:04
Nei, Sigurður minn, ég myndi aldrei lýsa þér öðruvísi en sem þeim myndar- og sjentilmanni sem þú ert.
Helga Guðrún Eiríksdóttir, 19.10.2007 kl. 03:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.