Fornmaður af bestu sort

Nýlega sagði ég hér frá draumi sem mig hafði þá nýskeð dreymt. Held nú áfram í sömu átt, enda eru draumar um margt skemmtileg fyrirbæri og hugsanlega fróðleg.

Ekki er mark að draumum, segir einhvers staðar. Þó gerðist það nokkrum sinnum hjá mér sem barni og fram á unglingsár að mig dreymdi nákvæmlega atvik sem gerðust í vöku minni daginn eftir eða rættust á einhvern berlegan máta mjög skömmu síðar. Mér hefur sem fullorðnum manni oft orðið hugsað til þess hvort tiltekinn draumur sem tengdist nafni Lágafells hafi eingöngu verið samsetningur ruglingslegra taugaboða sofandi barns:

Það hefur líklega verið sumarið eftir að við fluttum í húsið á Hulduhólum, 1948. Ég hef þá verið 10 ára. Mig dreymdi að ég væri að fara að sækja hestana og stytti mér leið ofan yfir holtið neðan við [Huldu]hólinn þann eina sem enn stendur vestan þjóðvegarins, ætlaði þaðan þvert yfir ofan túnin að kúahliðinu sem var mikils til þar sem „græna blokkin" stendur núna, 2004 (en þá var pistill þessi upprunalega skrifaður).

Sem ég kem fram á holtið kemur maður sunnan eftir því í áttina frá Hamrafelli og fer mikinn. Búnaður hans var mjög sérstakur miðað við árið 1948: hann var í hnébrókum með skálmum hnepptum utan, sokkum sem náðu upp undir skálmarnar og þar yfir í skinnskóm með þvengjum krossvöfðum upp yfir kálfann. Yfir sér hafði maðurinn einhvers konar stakk eða skikkju og hjálm á höfði. Hann var girtur sverði og hélt á stuttu spjóti. Þetta var sem sagt fornmaður af bestu sort.

Mér stóð strax stuggur af þessum manni sem nú óð beint að mér og tók formálalaust í öxlina á mér með lausu hendinni. Hann tilkynnti mér að nú ætlaði hann að segja mér hvað landslagið héti sem ég hefði fyrir augunum; ég skyldi leggja það á minnið „og ef þú manst það ekki þegar þú vaknar skaltu hafa verra af!"

Að svo mæltu hóf hann upp nafnaþulu og benti mér um leið með spjótinu. Í draumnum fannst mér ég fyrst og fremst dauðhræddur við þennan mann og hótun hans. Þetta endaði með að ég vaknaði í svitabaði með ákafan hjartslátt, en settist fram á, náði mér í ritföng og reyndi að rifja upp hvað maðurinn hafði sagt, svo ég skyldi ekki hafa verra af...

Mér fannst ég muna óttalega lítið, en með blaðið til stuðnings rifjaði ég drauminn upp fyrir foreldrum mínum - eða minnsta kosti mömmu - og fékk þá mildilegu ráðgjöf að þetta hefði bara verið leiðinlegur draumur og ég skyldi reyna að gleyma honum sem fyrst. Það hefur mér ekki tekist enn í dag, hartnær 60 árum síðar, og fyrstu vikurnar á eftir forðaðist ég að fara þarna fram á holtið.

Snifsið sem ég skrifaði örnefni fornmannsins á þarna um nóttina er vitaskuld löngu glatað, enda var það ekki fjölbreytt sem á því stóð. En það sem ég þóttist muna af ræðu hans var eitthvað á þessa leið:

0608090009„Sérðu slakkann, sem liggur þarna ofan við Blikastaði og hérna heim yfir túnin? Þetta eru allt tún núna, en einu sinni voru þetta mýrar og heita Mýrarlágir. Og ef þú heldur að Lágafell heiti Lágafell af því það sé svo lágt ferð þú villur vegar. Það er af því að það er fellið ofan við Lágirnar, alveg eins og holtið sem við stöndum á heitir Lágabrúnir en holtið þarna niðri frá heitir Lágaholt." [Þar var seinna reist húsið Klöpp.]

Því miður held ég að þetta hafi verið allt og sumt sem ég mundi, þó að mér vöknuðum fyndist ræða fornmannsins hafa verið mun lengri. Aldrei vitjaði hann mín þó aftur. Annað hvort hefur honum ekki þótt miklu púðri á mig eyðandi, eða hann hefur ákveðið að láta gott heita að ég myndi þó þetta!

- Lágafellsskóli stendur nú í Mýrarlágunum næstum miðjum. Þegar ég heyrði nafngift hans á sínum tíma flaug mér í hug fornmaðurinn fjandvinur minn og upplýsingar hans - og hvort skólinn hefði ekki betur heitað einfaldlega Lágaskóli!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Draumar eru miklu merkilegra fyrirbæri en fólk yfirleitt telur. Heyrði viðtal við prófessor í háskóla hér um daginn sem hefur rannsakað drauma í yfir 30 ár og hann segir að það séu margar gerðir af draumum og þeir séu alls  ekki bara úrvinnsla undirvitundar úr dagvitund.

Það er bara staðreynd að fólki getur dreymt fyrir hæutum..hægt er að fá aðvaranir í gegnum drauma og oft mikla leiðsögn og kennslu. Sumir draumar eru sálarferðir og stundum eru þeir hreinlega mjög skýrir fyrirboðar..hvaðan sem sú vitund kann að koma ínn í draumveröld manns.

Merkilegur þessi draumur þinn.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 6.10.2007 kl. 16:03

2 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Mér finnst að þessi maður hafi bara viljað koma því á framfæri hvaða nöfn væru á þessum stöðum. Ég skil hann alveg, pirrast stundum með sjálfri mér þegar farið er með rugl á þessu sviði. Það var nú samt alveg óþarfi að hræða þig svona. kv.

Helga R. Einarsdóttir, 6.10.2007 kl. 18:21

3 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Merkilegur draumur ... eiginlega mjög skemmtilegur, sérstaklega af því að þú manst hann svona vel enn í dag. Það rifjaðist svo upp fyrir mér þegar ég las færsluna þína að fyrstu skref mín í blaðamennsku voru tekin þegar þú, þáverandi ritstjóri Vikunnar, leyfðir mér, skrifstofupíunni af DV, að þýða draumráðningagrein í Vikuna í kringum 1985. Takk fyrir það, Siggi minn, stóri draumurinn minn um að verða blaðamaður rættist svo fimmtán árum seinna þegar ég hóf störf sem blaðamaður, einmitt á Vikunni. Var búin að steingleyma þessu!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 6.10.2007 kl. 21:48

4 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Já, Gurrý mín, ég ber nokkra ábyrgð á sumum kollegum okkar gegnum tíðina og í þínu tilviki a.m.k. er ég bara nokkuð hróðugur með það! -- En ég man ekki að þú hefðir hátt um þennan draum þinn þarna um þessar mundir, enda hætti ég með Vikuna í hið síðara sinn einmitt þetta ár 1985 og gerðist algjör einyrki með Úrval, ásamt því að skrifa um bíla í DV en var aldrei starfsmaður þess blaðs að öðru leyti.

Og Hjördís -- mér hefði varla dugað þessi vísbending! Játa mig gjörsigraðan í vísnastríðinu -- að sinni!

Sigurður Hreiðar, 7.10.2007 kl. 21:11

5 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Já, Hjördís, það er nokkuð víst að örnefnapælingar voru einhver ljósár frá þeim snáða sem var að alast upp á Hulduhólum um miðja síðustu öld.

Því miður verð ég fjarri góðu gamni í kvöld, nema Þengill eða einhver úr hans liði vinni kraftaverk á flensu minni fyrir kvöldið.

Góð kveðja

Sigurður Hreiðar, 8.10.2007 kl. 09:28

6 Smámynd: halkatla

ji en æðislegt

halkatla, 9.10.2007 kl. 09:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband