Taskan úr RL-búðinni

 

Lengi hefur mér gramist að um fjórðungur af leyfðri þyngd innritaðs farangurs í flugi eða jafnvel rúmlega það skuli vera þyngd töskunnar sjálfrar. Því þóttist ég nokkuð heppinn í sumar þegar ég fann þriggja hjólatösku sett þar sem stærsta taskan var aðeins um 3,5 kg, eða aðeins 17,5% af þeim 20 kg. sem almennt má hafa í flugfarangri. Stór nokkuð eigi að síður, um 77 sm á lengd, 44 sm á breidd og 22 sm á þykkt.

Á fyrsta áfangastað var dráttarhandfangið farið af. Á næsta var handfangið ofan af töskunni farið af. Á þriðja hafði sylgjan brotnað af töskubeltinu sem dugað hefur mér vel í þrjá áratugi eða svo, enda var það nú miskunnarlaust notað til að handlanga töskuræfilinn sem orðinn var býsna handfangarýr og því afslappur nokkuð í meðförum.

„Varstu að versla í RL-búðinni vinur?" sagði einn ferðafélaginn og ég mátti játa að svo var, þó ég skildi ekki fyrst í stað hvaða fyrirtæki hann var að vísa í enda gengur það opinberlega undir öllu lengra nafni. En hann skildi þetta vel, hafði sjálfur lent í svipuðu og þó verr því hjá honum fóru hjólin undan líka. Þau löfðu þó við minn grip ferðina á enda.

„Láttu bara Icelandair borga þetta eða skaffa nýja tösku," sagði annar úr hópnum, ferðalangur mjög. „Farðu bara á þjónustuborðið í Keflavík og segðu þeim að svona hafi þetta komið úr vélinni. Þeir eru með tryggingu."

Mér þótti það þó ekki alveg heiðarlegt og hef því ákveðið að sitja upp með minn skaða. Jafnframt mun ég hugsa mig um oftar en tvisvar áður en ég kaupi eitthvað af þessu tagi í RL-búðinni héðan í frá enda er þetta ekki í fyrsta sinn sem ég læt véla inn á mig drasl í þeim ranni.

-- En ef einhver veit um góða hjólatösku innan við 4 kg. á þyngd má hann gjarnan gefa sig fram. Hún þarf ekki að vera alveg eins stór og að ofan er lýst en æskilegt að hún sé amk. jafn þykk. Óg hún verður að þola heildarþyngd upp á 20 kg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

En af hverju sagðirðu ekki hvert þú fórst "í sumar"? kv.

Helga R. Einarsdóttir, 25.9.2007 kl. 18:19

2 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Það skipti ekki máli fyrir söguna af örlögum töskunnar. Né heldur segi ég neitt um að ég hafi farið eitthvað í sumar, heldur bara að mér hafi þótt hlaupa á snærið fyrir mér í sumar þegar ég fann töskuna.

Hvert ég fór og hvenær kemur kannski síðar í ljós -- þegar það skiptir máli.

Kveðja í bæinn.

Sigurður Hreiðar, 25.9.2007 kl. 20:24

3 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Ég eignaðist eina svona tösku í sumar og ætlaði með hana til útlanda. En svo var hún ekki nógu rúm svo ég lét hana verða eftir heima. Kannski fær hún nú aldrei að fara út fyrir landsteinana, ég treysti henni ekki lengur kv.

Helga R. Einarsdóttir, 25.9.2007 kl. 20:36

4 Smámynd: Júlíus Valsson

Fórstu til Færeyja?

Júlíus Valsson, 25.9.2007 kl. 21:01

5 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Sæll, ég hafði aldrei velt þessu fyrir mér með þyngd töskunnar, ekki svona vísindalega alla vega. Hins vegar keypti ég ævifagra, stóra, ódýra og lauflétta tösku fyrir 2-3 árum og hef enn ekki haft döngum í mér til að henda henni, því hún er ennþá falleg og lítið skemmd. En þessi skemmd er svo bagaleg, það er eitt handfang á henni og það er farið og ekkert til að festa hendur á fyrir utan þetta handfang, nema að spenna upp dráttarhandfangið. Hún er notuð sem hirsla núna og ekki til annars nýt. En ég þykist vita hvert þú fórst ;-) og vona að ferðin hafi verið jafn vel heppnuð og stefndi í, samkvæmt ferðaáætluninni. 

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 25.9.2007 kl. 23:10

6 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Já, Anna, það er erfitt að handfjatla töskuhlussur sem handföngin eru farin af. Ferðin var fín enda félagsskapurinn afbragð. Merkileg lífsreynsla að ferðast með „skemmtiferðaskipi“ sem tekur 8 evrur í skylduþjórfé pr. mann á dag ofan á farseðil sem var nú ekki gefinn til að byrja með og rífur farþegana upp á rassinum flesta morgna meðan nóttin er enn dimm til að fara með þá í skynditúr í land sem ómögulegt er að meðtaka af neinu skynsamlegu viti á örfáum klukkustundum. -- En gaman að hafa prófað þetta.

En -- ítreka -- hvert ferðin var farin og hvenær er aukaatriði. Þetta blogg snerist um illa gerðan töskuræfil úr RL-búðinni.

Sigurður Hreiðar, 26.9.2007 kl. 08:22

7 identicon

Það eru til ægilega fínar, mjög léttar töskur í Drangey - en þær kosta!!!! http://drangey.is/ferdatoskur.html 

Kolbrún Jónsdóttir (IP-tala skráð) 26.9.2007 kl. 11:06

8 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Takk fyrir þetta, Kolla (ert þú ekki Kolla?). Ég mun að mér heilum og lifandi skoða þessar titan-töskur, sýnist miðstærðin henta mér ágætlega. Í samanburði við RL-ræksnin borgar sú taska sig upp á ca. tveimur árum miðað við meðal flökkutíðni mína síðustu árin. Og það er peninga virði að þurfa ekki að baslast við handfangalaus töskuskrífli við misvondar aðstæður!

Sigurður Hreiðar, 26.9.2007 kl. 12:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 306294

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband