30.8.2007 | 08:33
Neflaus bíll -- síðari hluti
Í gær byrjaði ég dramatíska tveggja kafla framhaldssögu sem hófst í raun fyrir fjölmörgum árum við stein við Reynisvatnsafleggjarann, efst í Klofningum, stein sem ég einhverra hluta gekk að nokkrum sinnum á ári þangað til framkvæmdir við Gullhamra og Nóatún í Klofningum muldu hann eins og annað forgengilegt.
-- Hvaða erindi átti ég við þennan stein? Ég veit það ekki. Einhvern óskýranlegan fortíðartrega, við hann varð ég fyrir slysi sem hefur með sínum hætti fylgt mér alla tíð þó ég beri engin líkamleg merki þess. Kannski var erindið að minnast manns sem lítill drengur þekkti í raun harla lítið og skamma stund en lærði á samt að þykja vænt um.
En -- hverfum nú til sögunnar þar sem frá var horfið:
Sjúkraliðar hersins hurfu til síns heima þegar búið var að skila fólkinu aftur heim á Engi en ökumaðurinn var kominn aftur að vörmu spori og gerði foreldrum mínum skiljanlegt með orðabókum og pati að hann hefði fyrirmæli um að láta fyrir berast um nóttina í bílnum og vera til taks ef stráknum kynni að versna.
Svona var bíllinn sem var einkabíll okkar á Engi nokkra sólarhringa á haustdögum 1942. Ökumaður hans, sem kom og hvarf, hefur verið mér ofarlega í minni allar götur síðar, sem vinur og mannvinur. Hvað varð um hann?
Mér versnaði svo sem ekki og næstu dagar liðu, en brotið vildi ekki gróa rétt. Læknirinn sem um það fjallaði, með suður-amerískt ættarnafn, kannski upprunalega spánskt, endaði með að tilkynna að olnboganum yrði ekki bjargað, það yrði bara að setja hann stífan.
Það hefur varla verið ánægjuleg tilhugsun fyrir foreldrana að eini strákurinn í barnahópnum væri dæmdur til að vera með stífan handlegg alla ævi. En við því var víst ekkert að gera - og þó.
Í öllum góðum sögum er hjálpin næst þar sem neyðin er hæst. Svo fór einnig hér. Nýr læknir hafði samband við pabba og mömmu og sagðist hafa lesið um aðferð til að laga svona brot án þess að skera handlegginn allan í parta og setja saman upp á nýtt, hvort hann mætti reyna? Að vísu þyrfti að brjóta eitthvað upp sem farið væri að gróa vitlaust, en þetta yrði aldrei verra en sá dómur sem þegar hafði verið kveðinn upp.
Engi í Mosfellssveit vorið 1946. Fermingardagur systur minnar Gunnfríðar sem hér leiðir fyrstu systurdóttur okkar, hana Helgu R (bloggvin minn ammatutte).
Þetta var ákveðið. Strákurinn svæfður með því að leggja grisju yfir vit hans og láta leka þar í eitthvað með hræðilega vondri og sterkri lykt. Og til að gera langa sögu stutta tókst aðgerðin eins og best verður á kosið og olnboginn hefur haft fulla hreyfigetu og styrk á ævi sem nú er orðin bara bærilega löng -- og allt þetta á strákurinn að þakka Pétri Jakobssyni lækni og síðar sérfræðingi og prófessor í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp.
Allan þann tíma sem þetta stóð yfir höfðum við okkar einkabíl og einkabílstjóra, því það var hann orðinn þessa dagana pilturinn á sjúkrabílnum, eini maðurinn af gjörvöllu setuliði á stríðsáranna sem komst nálægt því að verða heimilisvinur á Engi. Þetta var nú bara krakkagrey," sagði pabbi þegar við vorum að tala um þetta löngu seinna. Hann hafði heitað sama nafni og pabbi hans og var því bara kallaður Junior, í mínum munni varð það Sjúníor og við urðum ágætir vinir þrátt fyrir gagnkvæmt málleysi.
Hann var hjá okkur á aðfangadagskvöld jólin eftir þennan atburð og mér er það minnisstætt að hann brast þá í grát, hefur sennilega fundið sárt fyrir fjarlægðinni frá þeim sem honum voru kærastir og vonleysi stríðsins. Talmer L. Nash hét hann, var nýgiftur þegar hann var sendur hingað og átti sitt fyrsta barn í vonum. Fljótlega eftir þessi jól var hann sendur eitthvað austur um haf, kom gangandi um kvöld til að kveðja okkur með tárum og svo hvarf hann okkur fyrir fullt og allt. Til er í mínum fórum kort með mynd af þeim hjónum með kveðju, ártalið vantar og ég er ekki viss hvort hann skildi myndina eftir eða sendi hana eftir á. Við vissum við aldrei hvað um hann varð.
To My Dear Friends From Mr. & Mrs. Nash. With Good Wishes and the best of Luck through the coming years. To Siggie and Family
Þegar netið kom til sögunnar með sínum miklu möguleikum hafði ég uppi á þessu nafni vestra og heimilisfangi. Sendi þangað bréf með afriti af myndinni og áletruninn en hef aldrei fengið svar. Ég hef ekki árætt að reyna að hringja. Þykist alveg þolanlegur í enskunni nú orðið að vísu, en óttast að fyrir mér kynni að fara eins og Sjúníor á jólunum heima á Engi 1942...
Sumir hlutar þessarar sögu standa mér skýrt fyrir hugskotssjónum. Aðrir eru í einhverskonar móðu -- hvað man ég í rauninni og hvað hefur mér verið sagt? Kannski hef ég með tímanum skáldað í eyður eins og allir gera þegar þeir rifja upp löngu liðna atburði. En steinninn sem ég braut olnbogann á forðum hvarf í raskinu þegar farið var að byggja og braska í Klofningum, eins og allt annað sem minnir á kotið Engi sem byggt var á Tjarnenginu sem nú heitir Úlfarsárdalur.
Einu hef ég oft velt fyrir mér í sambandi við þennan atburð. Hvers vegna valdi ég, sem átti heimsins bestu foreldra og stadda á næstu grösum, að kalla frekar á tíkarhvolpinn en þau?
Héla, Héla mín...
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Takk fyrir skemmtilega sögu og í sjálfu sér skil ég að þú skulir hafa kallað á hundinn, enda eru betri og tryggari félagar sjaldséðir. Líka gaman að sjá þarna fermingarmynd af ömmu
Kveðjur af Hvanneyri
GEH
Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir, 30.8.2007 kl. 17:11
Besti vinur mannsins alltaf til staðar
En mamma fékk líka að kynnast góðmennsku hermanna þegar hún varð fyrir því óhappi á fjórða ári að fá glerbrot í augað sem varð til þess að hún missti sjónina á því.
Hún hefur eflaust fengið far í svona "neflausum" bíl eins og þú á sjúkrahúsið
Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 30.8.2007 kl. 23:06
Þökk fyrir skemmtilega sögu. Kkv.ÞÞK
Þuríður Þorbjörg Káradóttir (IP-tala skráð) 2.9.2007 kl. 08:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.