29.8.2007 | 11:19
Kanar á neflausum bíl og hundurinn Héla
Ég á stundum erindi í fyrirtæki eins og Húsasmiðjuna. Þá er styst fyrir mig að fara í útibú sem kennt er við Grafarholt. Það stendur í slakka sem verður milli Grafarholts og Keldnaholts og hét áður Klofningar. Þarna segir sagan að Einar Ben hafi hugsað sér að grafa skurð til að veita Úlfarsá (Korpu") út í Grafarvog og efla með því laxagengd -- líklega þá í Grafarvogi, þar sem hann átti netarétt til að veiða lax.
Nema hvað, þetta eru mínar bernskuslóðir og ævinlega þegar ég fer þar um fyllist ég vissum fortíðartrega. Nokkurn veginn þar sem bílaplanið framan við Gullhamra (mig minnir að það sé nafnið á húsi fast austan við Nóatún á þessum slóðum, hef held ég aldrei séð þar neitt að gerast) var um tíma kartöfluakur frá kotinu Engi þar sem ég fæddist og átti heima framan af. Það var í Mosfellssveit þangað til Reykjavík tók það eignarnámi árið 1944. Ég held að í pabba hafi verið slett 25 þúsund kalli um leið og honum var sagt að hypja sig með hyski sitt.
Hér til hliðar er mynd af Engi á stríðsárunum, tekin ofan úr Grafarholtinu þar sem nú heitir Grænlandsleið, og sér yfir á kampinn Belvor á Lambhagafellinu. Þar heitir nú Suðurhlíðar Úlfarsfells. Dalbotninn hét áður Tjarnengi, núna Úlfarsárdalur.
Tveimur árum áður en eignarnámið varð að veruleika komu Kanar til landsins og tóku við af Bretum að verja það. Þeir byggðu kamp þarna dálítið ofar við Reynisvatnsafleggjarann og kölluðu Scot´s Camp. Með einhverjum sveimandi og óljósum hætti finnst mér Scot´s Camp vera sögusvið Arnaldar Indriðasonar í Grafarþögn. Það sem mér finnst nú hafa einkennt strákana í Scot´s Camp var hvað þeir voru barngóðir; þeir voru sífellt að víkja einhverju að krakkanum á Engi, sælgæti af ýmsu tagi, ávöxtum, og teiknimyndablöðum með Mikka mús eða Svínsu.
Einn daginn þegar ég var fjögurra ára var fólkið mitt að taka upp kartöflur í Klofningum. Mér þótti það leiðinleg iðja og var á randinu þarna í kring ásamt tíkarhvolpinum Hélu sem var leikfélagi minn um þessar mundir. Tilbreytingarlaust vissulega og því kærkomið þegar bíll kom frá Scot's Camp, neflaus loftpressutrukkur, en á þessum tíma hafði ég ekki lært að svona bílar væru kallaðir frambyggðir. Kannski var ekki einu sinni búið að finna upp orðið.
Til hliðar: fjögurra ára snáðinn ásamt hundtíkinni Hélu.
En nú var best að fylgjast vel með. Það var aldrei að vita nema þeir sem þarna fóru hefði eitthvað að gauka að litlum dreng sem leiddist. Og jú, þeir námu staðar, komu út úr bílnum sinn hvorum megin, létu snáðann krossleggja hendur á brjósti og röðuðu þar í ilmandi appelsínum eins og tolldi. Bulluðu einhver ósköp á óskiljanlegu máli og hlógu og klöppuðu stráksa á kollinn, sneru síðan aftur að sínum neflausa bíl.
Drengurinn hafði lært að stundum datt svona mönnum í hug að bæta einhverju við þótt þeir létust vera að fara, og til að missa örugglega ekki af því var eins gott að hafa ekki augun af þeim. Samt ætlaði hann að færa sig aðeins fjær og steig eitt eða tvö skref aftur á bak. Rak þá hæl í stein og féll aftur yfir sig, sló út höndunum svo appelsínurnar dreifðust um nágrennið en hægri olnboginn rakst af afli í steininn.
Ó, hvað það var sárt! Ég hef ugglaust rekið upp vein, en ég kallaði ekki á fólkið sem var í nánd heldur leikfélagann minn góða, Héla, Héla mín!
Hermennirnir sneru við í snarheitum og brenndu upp í kamp. Fyrr en varði voru komnir tveir aðrir á sjúkrabíl: vildu foreldrarnir fara með barnið á fínasta hátæknisjúkrahús þess tíma, hersjúkrahúsið á Ásunum? Nei, vegna tungumálaörðugleika vildu þeir heldur fara á gamla góða og lummulega Landspítalann. Þar var snáðinn svæfður og eitthvað baukað við handlegginn áður en hann var settur í gifs, þetta var ekki efnilegt, olnboginn meira og minna brotinn, bæði framhandleggsbeinið og upphandleggsbeinið - ekki veit ég hvað mörg bein koma þarna saman.
-- Hér sé ég að sagan er of löng til að setja hana í eitt blogg, þannig að ég segi bara eins og tíðkaðist hér áður fyrr:
Framhald í næsta blaði.
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég man bara eftir Tátu. Verst að þú skyldir missa af að komast á herspítalann. kv.
Helga R. Einarsdóttir, 29.8.2007 kl. 21:37
Skemmtileg frásögn. Ég bý hérna í Grafarvoginum og hjóla oft hringinn í kringum Úlfarsfellið. Velti því oft fyrir mér þeim miklu minjum sem víða má sjá hér á svæðinu og hversu mikið hefur í raun verið umleikis hér á stríðsárunum. Ótrúleg mannvirki sem hafa staðið á þessum slóðum.
Hagbarður, 30.8.2007 kl. 01:14
Já, Helga R, ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig farið hefði ef herspítalinn hefði orðið fyrir valinu. En eitt er víst: læknisverkið hefði ekki verið betur unnið.
Sigurður Hreiðar, 30.8.2007 kl. 08:38
Hagbarður, þakka þér fyrir innlitið. Hér var gífurlega mikið umleikis á stríðsárunum. Í bók Þórs Witehead, Styrjaldarárin á Íslandi minnir mig hún heiti, ég hef hana ekki alveg hér við hendina, má ma. sjá yfirlit yfir alla kampana, hverra minjar eru nú óðum að þurrkast út.
Og -- ef þú hjólar umhverfis Úlfarsfellið hefur þú sjálfur séð hve fjarri fer því að byggðin sem nú er að rísa í Lambhagafellinu sé í Suðurhlíðum Úlfarsfells!
Sigurður Hreiðar, 30.8.2007 kl. 08:42
Þakka þér fyrir upplýsingarnar. Verð mér úti um bók ÞW. Sammála þér með nafngiftina, "Suðurhlíðar Úlafarsfells" sem almennt er notuð um þetta hverfi sem nú er að rísa og ranglega er notuð. Nær að kenna hverfið við þau örnefni sem næst eru.
Aftur kærar þakkir.
Hagbarður, 3.9.2007 kl. 15:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.