Rosalega merkilegur maður

Kannski er mál að fara að taka sér bloggfrí. Þetta er að verða vanabindandi fjandi -- gá hvað er að gerast á blogginu, vera með. Gallinn er bara sá að ég hef svo fjandi gaman af að skrifa. Sitja bara hér við tölvuna og láta fingurna dansa á lyklaborðinu, láta eitthvað koma sem maður sendir frá sér með hæfilegri ábyrgð, og kannski hafa einhverjir gaman af að lesa það sem þannig verður til.

Lof sé Gunnar heitnum Grímssyni sem kenndi mér fingrasetningu sem ég er ekki viss um að hann hafi kunnað sjálfur, en hann átti blað sem sýndi hvar hvaða fingur átti að lenda. Þetta kostaði æfingu en tókst (að mestu). Verra hjá henni elstu systur minni, eftir því sem hún segir, hún var vön að spila á orgel og var ósjálfrátt alltaf að reyna að taka hljóma á ritvélina. Það gekk ekki vel.

En áður en ég fer í bloggfrí -- ef ég læt verða af því: Í fyrradag skrifaði ég pistil nokkurn um fölnaða frægð Álafoss og minntist þar á að Mosfellssveitarrútan hefði iðulega verið kölluð Álafossrúta. Af því fólk í öðrum sóknum hélt að Mosfellssveit héti Álafoss. Alveg eins og mér sýnist fólk í fjölda sókna nú til dags rugla saman allskonar nöfnum, halda td. að Hrunamannahreppur heiti Flúðir.

Nema hvað ég hef orðið var við að fólk hefur tekið eftir þessu. Gamall kunningi sem ég hef ekki heyrt í lengi tók sig til og hringdi í mig, þótti gaman að þessu. Sveitungi sem ég hitti hér uppi í Krónu spurði kankvís: Hvað syngur í gömlum Álfyssingum?

Svo mér dettur í hug að peista hér inn dálítinn pistil sem ég á í fórum mínum þar sem lítill strákur í Mosfellssveit (ekki M-bæ, hann var ekki til þá), skrifaði einu sinni um áætlunarbílinn í Mosfellssveit. Þetta segir frá þeim tíma þegar rútur hétu áætlunarbílar -- það var ekki einu sinni búið að finna upp orðskrípið almenningsfarartæki.

rutur-svLæt fylgja þessu mynd af gömlum rútum tveim. Báðar átti á sínum tíma Karl Pálsson (Kalli Páls), þekktur bílaútgerðarmaður á sinni tíð, varð fyrstur til að taka upp skipulegar áætlunarferðir í Mosfellssveit og etv. víðar. Hann var frá Eiði í Mosfellssveit, bæ sem ekki er lengur til en stóð sunnan og ofurlítið ofan við þar sem nú er farið út á Geldinganeseiði -- í Reykjavík. Önnur rúta, sú til hægri á myndinni, er af gerðinni Diamond og var er strákur segir frá í eigu Magnúsar þess er hann nefnir í frásögn sinni.

 

En grípum hér niður í frásögn stráksins, þar sem hann er að rifja upp liðna daga:

Strákurinn fékk stundum að fara í bæinn með pabba og mömmu. Þá bambaðist pabbi oft með trékassa fullan af eggjum framan á sér niður á veg og svo var beðið eftir áætlunarbílnum.

Magnús í Garði átti áætlunarbílinn. Kannski marga bíla því áætlunarbíllinn var ekki alltaf sami bíllinn. En þeir voru allir eins grænir – ljósgrænir. Stundum ók Magnús sjálfur. Hann heilsaði stráknum alltaf innvirðulega og sagði stundum eitthvað við hann sem hann vissi ekki hvernig hann átti að svara, varð bara kindarlegur. En rosalega var þetta merkilegur maður, Magnús, að eiga alla þessa bíla og kunna að aka þeim, með margt fólk.

 

Stundum ók annar maður sem hét Jói. Hann heilsaði aldrei sérstaklega en það var alveg ljóst að hann hafði önnur tök á bílnum heldur en Magnús. Jói gat látið bílinn fara hratt. Það var rosagaman. Kannski voru bílar eins og hestar, sumir gátu látið hesta hlaupa fallega en hjá öðrum var hlaupalag þeirra ekkert sérstakt. Merkilegur maður líka, þessi Jói. Strákurinn ætlaði að verða bílstjóri þegar hann yrði stór og aka bílunum hans Magnúsar í Garði.

En það var snubbótt að heita bara Jói og ekkert meir. Aðrir Jóar hétu eitthvað meira. Hinn Jóinn sem strákurinn vissi um hét Jói Páls. En það rann upp ljós fyrir stráknum þegar hann heyrði stóra fólkið spekúlera í bílunum sem fóru um veginn. Þarna fór stór herbíll með mörg hjól og stafi málaða á hliðina á húddinu: US Navy. Þetta er Jói Snævi, sagði stóra fólkið spekingslega og strákurinn skildi þetta undir eins, Jói á áætlunarbílnum var kominn í Bretavinnuna og farinn að aka herbíl, og auðvitað hét hann Jói Snævi. Það gat ekki verið að nokkur maður héti bara Jói. Strákurinn bar helmingi meiri virðingu fyrir Jóa Snæva eftir þetta og lét sér fátt um finnast að stóra fólkið hló.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir

Ég hef nú voðalega gaman af því að lesa það sem þú skrifar og kíki regluleg hérna inn.  Ég vona því að þú gerir ekki mikla alvöru úr blogg-fríinu

kveðja að norðan

GEH

Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir, 16.8.2007 kl. 11:06

2 identicon

Flottir bílar.  Eg veit nú að karl faðir minn, myndi vilja skoða þá nánar, enda bílaáhugamaður mikill fram í fingurgóma. 

Skemmtileg lesning þetta blogg þitt annars, ég er búin að sitja og lesa og lesa.

Kveðja GB 

Guðrún B. (IP-tala skráð) 16.8.2007 kl. 12:09

3 Smámynd: Hulda Bergrós Stefánsdóttir

Gaman að lesa bloggið þitt   Pabbi kunni endalaust af svona bílstjóra og bílasögum

Finnst samt eins og ég sé að eldast þar sem ég man vel eftir Manga "gamla" í Garði og vörubílnum hans

Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 16.8.2007 kl. 16:43

4 identicon

Það er satt hjá þér að blogg er svolítið ávanabindandi, ég ehf nú ekki oft eitthvað mikið að segja en einhvern veginn þá er það eins með mig og þið að mér finnst eitthvað svo dásamlegt við að láta fingurnar hlaupa yfir lyklaborðið. Það er virkilega gaman að lesa pistlana þína.......kveðjur úr kuldanum á Akureyri Erna

Ernan (IP-tala skráð) 16.8.2007 kl. 16:52

5 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Svona er gaman. Láttu það vera að tala um "frí" ég hef nú verið að í rúmt ár held ég og enn ekki talað um frí. Það er allt í lagi að "slá slöku við" af og til,  þá er manns saknað og það er gott. kv.

Helga R. Einarsdóttir, 16.8.2007 kl. 22:35

6 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ætli það verði ekki líka endirinn á hjá mér, Helga mín? Það er ekki kominn fullur sólarhringur síðan ég var að nöldra þetta, og ég er tvífallinn -- á leið með að falla í þriðja sinn!

En ég set mér það mark að slá slöku við. Spurning þetta með söknuðinn…

Sigurður Hreiðar, 17.8.2007 kl. 07:55

7 identicon

Sæll vertu, óværan í Miðbænum leiddi mig hingað og þá sá ég að hugsanlega gæti þú lumað á einhverjum mikilvægum upplýsingum fyrir mig. Þannig er að ég er að skrifa sögu Finns Ólafssonar (1880-1957) heildsala í Reykjavík. Hann flutti inn Caterpillar, Avon dekk og fleira bílatengt. Veist þú eitthvað um hann eða veist þú um einhverja sem hugsanlega gætu lumað á fróðleik um hann?

Sigríður Hjördís Jörundsdóttir (IP-tala skráð) 17.8.2007 kl. 10:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband