Einu sinni var Álafoss

Sú var tíðin að maður þekkti næstum hvern kjaft hér í sveitinni, nema kannski þá sem komu úr bænum á morgnana til að vinna á Álafossi eða höfðu þar stuttan stans þó þeir hefðu koddann sinn í einhverjum kofanum þar. Árið sem ég fæddist voru Mosfellingar 406. Nú eru þeir að verða 8 þúsund. Og nú höldum við Mosfellingar upp á 20 ára afmæli kaupstaðarréttinda, sem fylgdi sú kvöð að breyta nafni sveitarfélagins úr -sveit í -bær.
Raunar komu víst nokkrar tillögur fram um önnur nöfn á bæjarfélagið, sem ekki byrjuðu á Mosfells-. En um þetta var kosið og ef ég man rétt var þetta nærri rússnesk kosning, allir vildum vér Mosfellingar vera.
Samt hafði þetta fyrr á öldinni sem leið staðið tæpt. Álafoss var stórveldi í íslenskum iðnaði á þeim tíma og þar voru haldnar stórar skemmtanir og íþróttamót. Fólk úr Reykjavík fór í sunnudagsferðir upp að Álafossi og hafði jafnvel pikknikk þar, sumir sem áttu tuskukot (tjald) fóru kannski á laugardegi og tjölduðu í einhverri gjótunni og voru í útilegu fram á sunnudag. Reyndu svo að ná í rútuna heim aftur. Já, og rútan var ekki kölluð Mosfellssveitarrútan nema stundum, hún var alveg eins kölluð Álafossrútan. Og þegar sveitin varð sjálfstætt læknishérað, í stað þess að þurfa að fara í heimsóknartíma til dr. med. Daníels Fjeldsted á Laugaveginum (opið 13-14, ef ég man rétt) hét það ekki Mosfellslæknishérað. Nei, það hét Álafosslæknishérað. Ef kosið hefði verið um nafn á þeim tíma héti sveitarfélagið sjálfsagt Álafossbær.
Nú er hún Snorrabúð stekkur. Varla nokkur skapaður hlutur eftir í Álafosskvosinni sem minnir á gamla uppgangstíma íslensks ullariðnaðar. Ég nefni ekki þessa húskumbalda sem eftir eru frá þessum tíma, það er ekkert einu sinni ullarlegt við þá. Og Varmáin, sem á sínum tíma var stífluð ofan við fossinn til að knýja öxla sem lágu í gegnum verksmiðjuhúsin, áður en rafmagn hélt innreið sína á Íslandi, er ekki einu sinni hlandvolg lengur. Allur ylurinn sem í hana fór áður fer nú til að hita hús -- Mosfellinga sumpart, en aðallega Reykvíkinga. Og hún sem notuð var til sundiðkunar í stíflunni góðu og þó nokkrir núlifandi Íslendingar lærðu að synda í -- hún er næstum væð á strigaskóm þessa dagana.
En við eigum ýmislegt fallegt og fróðlegt annað, þó að dýrðardagar Varmár og Álafoss séu liðnir. Við eigum tam. ágætis bókasafn og menningarsal áfastan við. Þar eru þessa dagana, í tilefni 20 ára afmælis kaupstaðarréttinda Mosfellsbæjar, sýndar forláta ljósmyndir úr bæjarlífinu síðustu 20 árin, yfirgnæfandi flestar eftir Karl Tómasson (ktomm) bloggvin minn og forseta bæjarstjórnar, mikið hreint fínar myndir og skemmtilegt að skoða. Ráðlegg öllum sem það geta að koma þar við.
0040

Læt hér í lokin fylgja með myndarkorn (sem ég tók sjálfur) af hluta þess sem eftir er af húsakynnum Álafossverksmiðjunnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Skemmtileg lýsing, Sigurður. Bestu þakkir!

Til gamans má geta þess að Mosfellingar eru núna álíka margir og íbúar í Reykjavík fyrir 100 árum!! Svona breytast tímarnir ört, umhverfið okkar og mannlífið með.

Kveðja

Mosi - alias 

Guðjón Sigþór Jensson, 14.8.2007 kl. 09:11

2 Smámynd: Karl Tómasson

Þetta var skemmtileg lesning eins og við mátti búast frá þér.

Takk fyrir að minna á sýninguna minn kæri.

Bestu kveðjur frá Kalla Tomm.

Karl Tómasson, 14.8.2007 kl. 12:49

3 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Hver talaði um"væl" til fortíðar?  Svo lengi sem Hlégarður stendur uppi  er ekkert að óttast og einskis að sakna.  Ég vissi ekki að þessi Karl væri svona merkilegur - Ég hefði kannski átt að leita vinsemdar hjá honum?

Helga R. Einarsdóttir, 14.8.2007 kl. 22:55

4 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Jæja, var ég með eitthver skens um væl einhvern tíma? Þú ættir bara að vita, ég var rétt í þessu að ljúka við að semja forláta fortíðarvæl sem ég er nokkuð viss um að þú hefðir haft gaman af að lesa þegar árans forritið skutlaði því öllu út! nema það komi einhvers staða upp úr dúrnum eins og draugavæl undan laki - guð má vita hvað þessum forritum getur dottið í hug. Altént nenni ég ekki að endurtaka þann leik í kvöld.

Já, ekki vanmeta Karl, honum er margt til lista lagt, ma. lunkinn ljósmyndari. Hann er vinsemdar virði.

Sigurður Hreiðar, 15.8.2007 kl. 00:23

5 Smámynd: Hulda Bergrós Stefánsdóttir

Bíð spennt efti rað komast í myndirnar

kannski er ein af mér í einu mótmælum sem ég hef tekið þátt í um ævina ...... í þá daga þegar unglingar vildu félagsmiðstöð

Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 15.8.2007 kl. 19:59

6 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Gott að vita af þér, Hulda Bergrós. GAman að þú skulir nenna að glugga í bloggið mitt!

Sigurður Hreiðar, 15.8.2007 kl. 23:30

7 Smámynd: Bergþóra Jónsdóttir

Ég býst við að það hafi verið Sigurjóni á Álafossi að þakka að afi minn, sveitarstrákur úr Kjósinni, var sendur til Danmerkur að læra spunaiðn.  Þaðan kom hann útlærður spunameistari og starfaði um tíma á Álafossi.

En annað um Mosó;  ég átti erfitt með að sætta mig við að kalla bæinn Mosfellsbæ.  Ég hefði frekar kosið að kalla hann áfram Mosfellssveit, eða bara Mosfell.  Þá hefði ég líka verið sátt við að kalla hann Varmá.  Lengi eftir að póstáritunum var breytt, skrifaði ég enn 270 Varmá á bréf í bæinn.

Lengi vel var skilti við Rauðavatn sem vísaði veginn austur, og á því stóð: Hveragerðisbær.  Það var ljótt, mun ljótara en Mosfellsbær.  Það kom upp einhver tíska að kalla staði "bæi" á þessum tíma.  Ótrúlega ljótt viðhengi á annars falleg staðanöfn, og algerlega óþarft. 

Eins og þú, kveð ég Jón Ásgeir samstarfsmann minn til margra ára með söknuði.  Hann var vænn maður.

Bergþóra Jónsdóttir, 16.8.2007 kl. 00:10

8 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Það var ekki tíska, Bergþóra. Það var skylda. Annað hvort lög eða reglugerð, ég veit ekki hvort og veit oft ekki muninn. Fæstir gerðu sér grein fyrir að Selfoss hafði -bær sem skylduhnýting við nafnið -- ég held Borgarnes líka og fleiri staðir. Þessu hefur guðsblessunarlega verið aflétt, en líklega eru flestir Mosfellingar amk. orðnir sáttir við bæjarnafnið núna. Ég segi samt oft enn Mosfellssveit, af gömlum vana!

Hver var annars afi þinn spunameistarinn?

Sigurður Hreiðar, 16.8.2007 kl. 09:43

9 Smámynd: Bergþóra Jónsdóttir

Hann hét Ólafur Guðmundsson.

Bergþóra Jónsdóttir, 16.8.2007 kl. 11:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 306295

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband