Athugasemd sem varð að bloggi

Upprunalega skrifað ég þetta blogg sem athugasemd til eythoringi.blog.is sem konan hans færir að jafni. Þau höfðu farið í helgarferð í Sauðhúsaskóg í Borgarfirði og blöskruðu allir trölljepparnir með tröllaukin flökkukotin aftan í sem hvarvetna fylltu götur og vegi og bílastæði. -- En svo sá ég að þetta var orðið fullgilt blogg og færði það bara hingað -- fyrirgefðu, Erna mín! -- Og þess vegna er þetta blogg að nokkru leyti stílað eins og sendibréf.

Já -- þegar fólk er búið að venja sig á hrikalega góðar dýnur og kodda og kaffivél er því eiginlega nauðugur einn kostur að bæta við sig flökkukoti á hjólum svo það geti eins og snigillinn skriðið í sinn eigin kuðung hvar og hvenær sem því hentar!

Eitt sumar var ég í verkefnum fyrir fyrirtæki sem flutti inn svona flökkukot og þegar ég fór í viðtalaferðir út á land gerði ég það að skilyrði að fá svona kot lánað og svo gerðum við frænka þín skemmtiferðir úr. Settum svo kotið niður á einhvern góðan stað og fórum útrásir frá því. Stundum var frænka þín eftir og naut einveru og hvíldar meðan ég var að í viðtölum.

Þetta var ágætlega gaman og þægilegt og okkur er báðum ýmislegt minnisstætt, eins og þegar við settum kotið niður á sjávarbakkanum á Akrafjöru á Mýrum í blíðskaparveðri, alein í öllum heimi. Um nóttina hvessti nokkuð og þegar við vöknuðum fengum við annað veifið ýringinn frá briminu á gluggana hjá okkur og meðan við fengum okkur morgunkaffið (bara instant, ekki úr kaffivél) nutum við þess að horfa á ógn, tign og fegurð brimsins úr öruggu og hlýju skjóli og hlusta á þá tröllahljómkviðu sem ólgandi hafinu getur fylgd. 

Þetta var ógleymanlegt, og raunar fleiri skipti þar sem við gátum látið fyrir berast á frábærum stöðum sem ómögulegt hefði verið að gista á með góðu móti öðru vísi. Eina leiðin önnur hefði verið sú að hírast í hráblautu tuskukoti (=tjaldi), dúðaður ofan í svefnpoka, með hor í nefi og rauð eyru. En þetta kostar nokkuð og til þess að réttlæta þann kostnað þarf að hafa mikinn tíma, annars verður hver gistinótt í hjóladýrðinni einfaldlega of dýr. Og þann tíma höfðum við ekki -- og höfum ekki enn, þrátt fyrir göfugan aldur.

Á hitt er líka að líta að með því að hoppa inn á næstu gistingu, hótel eða bænda, kemst maður oft í ómetanlegt samband við annað fólk, nýtt fólk. Víst kostar það nokkuð, en aðeins brotabrot af því sem það kostar að kaupa sér flökkukot, búa það út svo sem manni líkar með kaffivél og öllu, halda því við og borga fyrir það geymslu yfir veturinn. Það er nokkuð öruggt að maður hittir áhugavert og skemmtilegt fólk á gististöðunum. Og maður er nú alltaf manns gaman. Það er meira að segja gaman að bregða sér heim á bæ þar sem maður þekkir engan, bara til að spyrja hvað fjallið þarna heiti eða nesið þarna niðri við ána -- ég hef undantekningalaust góða reynslu af því og aldrei fengið nema góðar móttökur, oftar hreint frábærar.

Einu sinni vorum við t.d. í afskekktri byggð og vegurinn lá heim á hlað á bæ. Ég sá ekki framhald vegarins en þarna voru bóndahjónin að koma, líklega utan af túni. Við heilsuðum og ég spurði hvort ekki væri hægt að komast lengra þarna út með fjörunni á bíl. Nei, ekki var það. Hvaða flakk væri eiginlega á okkur, langt að rekin á bíl með A-númeri, þetta var á þeim tíma sem fastnúmerakerfið var nýupptekið en eldri bílar fengu að halda sínum gömlu landshlutabundnu númerum.

Eitt leiddi af öðru, nei við vorum ekki frá Akureyri, jú þetta var hjari veraldar, nei, við áttum ekkert sérstakt erindi, nei takk, við vildum ómögulega koma inn (þetta var á kvöldverka og matartíma í sveitinni), já við vorum í gistingu í sveitagistingunni í næstu byggð, nei, vegurinn þarna yfir fjallið var ekki nýrudd jarðýtuslóð heldur rúmlega hálfrar aldar gamall þjóðvegur vegagerðarinnar.

Eftir gott spjall, líklega hálftíma, sem var ærið nóg töf fyrir önnum kafið bændafólk bjuggumst við til að halda fram ferðinni og kvöddum. Þá sagði bóndinn: Heyrðu, á svona bíl kemstu alveg hérna út með fjörunni, alveg framundir múlann þarna. Þú ferð bara slóðina sem hefst á skurðbarminum þarna hinum megin við hlöðuna. Fariði bara varlega.

bronki2Svo læt ég bara fylgja þessu bloggi mynd af nefndum bíl með A-númeri, þar sem hann er staddur á einum af mörgum hjörum veraldar á Ísland, kirkjunni í Selárdal. -- Bíll þess, sem er einn sá versti sem ég hef átt, er ekki til lengur, hann mun hafa endað tilvist sína með veltu meðan hann var í eigu þess sem keypti hann af mér en varð þó ekki að slysi, guði sé lof fyrir það.

En þrátt fyrir allt var flakkað á honum furðu víða þann tíma sem hann var umborinn hér á þessum bæ.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: krossgata

Flökkukot er gott orð. 

krossgata, 13.8.2007 kl. 11:16

2 Smámynd: Móðir, kona, sporðdreki:)

Gott blogg hjá þér Siggi:) Já kannski ef maður fengi svona risakot lánað væri maður sáttur en að keyra með víxilinn aftan í skuldabréfinu er eitthvað sem mér finnst vera að verða of mikið um hér á okkar litla fallega landi, nema að þetta sé misskilningur hjá mér og íslendingar séu svona ríkir upp til  er reyndar að verða mjög mikið um nýríka íslendinga en ég tel nú samt að þetta sé meira og minna á skuld, svo er enn eitt inni í myndinni kannski er ég bara öfundsjúk:::)

Kv Erna H 

Móðir, kona, sporðdreki:), 13.8.2007 kl. 11:45

3 Smámynd: Móðir, kona, sporðdreki:)

Vil nú ekki vera sá dóni að gleyma að commenta á jeppann þinn mig rámar nefnilega í djásnið::) Fallegur bíll.....kv EH

Móðir, kona, sporðdreki:), 13.8.2007 kl. 11:48

4 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Já, hann var fallegur greyið, þegar búið var að bóna hann. Við kölluðum hann Sokka, af því hann var svona sokkabuxnabrúnn, tvílitur.

Annars þakkaði maður fyrir ef hann gekk heilan mánuð án þess að bila. Svo fór í honum vélin og þegar einn flinkasti mótorviðgerðamaður landsins, nágranni minn, var búinn að gera hana upp brotnaði bolti í kveikjunni. Sá var gjörsamlega ófáanlegur og með öfugsnúnini en fyrir rest fann viðgerðamaðurinn minn svona bolta í ruslakassa hjá kunningja sínum. Þegar boltinn var kominn á sinn stað lét ég bílinn fara fyrir slikk, búinn að fá nóg af þessu…

Svo gerðist það í fyrra, eða hittífyrra, að ég fékk mér kaffibolla sem oftar í Kringlunni. Nema hvað þá snarast að mér broshýr maður og segir: Nei, er þetta ekki maðurinn sem seldi mér besta bíl sem ég hef átt!

Og hann var ekki að djóka. En þetta er ástæðan til þess að ég veit um endalok Sokka.

Sigurður Hreiðar, 13.8.2007 kl. 12:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband