Fíat í efsta sæti

 -- og kemur gömlum Fíatvini ekkert á óvart!

Panda

Eitt af því sem ég fæ af gömlum vana hér í tölvuna hjá mér er netfréttabréf breska tímaritsins Auto Express. Nú þegar ég opna póstinn minn í morgun tilkynnir Auto Express mér hverjir séu 100 sparneytnustu bílarnir á markaðnum og eru þá búnir að prófa þetta sjálfir -- taka ekki orð annarra fyrir hlutunum.

Ekki kemur á óvart að það er smábílaflokkurinn, nú kallaður borgarbílaflokkur, sem í sparneytni og vistmildi (visthæfi kalla embættismenn Reykjavíkur það) ber höfuð og herðar yfir aðra. Þarna er birtur listi yfir 10 bestu í þessu efni, sem ég ætla að leyfa mér að tilfæra hér. Eyðslan er að vísu að breskum sið gefin upp í mílum á hvert gallón af eldsneyti, sem ég hef umreiknað í lítra pr. 100 km að íslenskum sið -- mílan 1,609 km og br. gallón 4,546 lítrar. -- Aukastöfum hef ég sleppt og nota upphækkun eða niðurfellingu eins og Lárus á Brúarlandi kenndi í gamla daga, sleppa 0,1-0,5, færa 0,6 og hærra upp í næsta heilan staf. -- Þetta hefur að vísu í för með sér að þrír bílar koma út með 6,1 í eyðslu en eru með einhvern aukastafamun í breska listanum (mpg). Það er munur upp á teskeiðar og varla merkjanlegur.

En svona lítur listinn út:

                                           Eldsn. l. pr. 100 km          Koldíoxíð gr. pr. km

1.  Fiat Panda 1,3 Multijet              5,4                              114

2.  Citroën C2 1,4 HDI                    5,9                              107

3.  Citroën C1 1,0                           6,1                              109

4.  Toyota Aygo 1,0                         6,1                              109

5.  Peugeot 107,1,0                         6,1                              109

6.  Kia Picanto 1,1                            6,4                              124

7.  Daihatsu Sirion 1,0                      6,7                              118

8.  Smart For Two 0,7                       7,1                              113

9.  Fiat Panda 1,2                             7,6                              133

10. Ford Ka 1,3                                 8,0                              147

Þetta er dálítið merkilegur listi, þegar farið er að  horfa á hann.

Í fyrsta lagi nær enginn þessara bíla að fá ókeypis bílastæði í Reykjavík, þó 8 af 10 séu undir 120 gr/km í koldíoxíðútblæstri, því ef ég man boðskap Gísla Marteins rétt þarf eldsneytiseyðsla að vera undir 5 l pr 100 km!

Í öðru lagi: Tveggja manna pútan Smart með 0,7 l vél er yfir 7 l í eyðslu og nær aðeins í 8 sæti á listanum. Það gera aftur á móti fjórir bílar með 1,2 l vél og þar yfir, þar á meðal toppbíllinn, Fiat Panda 1,3 Multijet.

Í þriðja lagi: Aðeins tveir bílar á þessum lista eru með dísilvél -- þeir tveir efstu.

Í fjórða lagi: Aðeins tveir framleiðendur eiga fleiri en einn bíl á þessum lista, Citroën og Fíat.

Í fimmta lagi: Minnsti koldíoxíð-útblásturinn er úr vélinni með stærsta rúmtakið, Citroën C2 1,4 HDI -- en það er líka dísilvél.

Ég get ekki stillt mig um að undirstrika góða útkomu Fiat á þessum lista. Hún kemur mér ekki á óvart. Hér á hlaðinu hjá mér hafa Fíatbílar iðulega átt heimahöfn -- raunar aðeins gamli og góði Fiat Uno, þeir urðu hér 5 alls ef ég man rétt og hver öðrum betri nema einn sem var hálf mislukkaður. Hann var líka sá eini sem var með 1,3 l vél; hinir voru allir með 1,0 l vél. (Ég komst aldrei til að eiga gamla Fiat Multipla með miðspikið undir framrúðunni, það er einhver fallega ljótasti bíll sem ég man eftir auk þess að vera þægilegur og skemmtilegur í akstri).

Hins vegar hefur Fíat sætt því óláni að vera rægður hérlendis langt umfram nokkra skynsemi. Hinn almenni kaupandi hefur að mínu viti goldið þess, því innan þeirra marka sem hægt er að ætla smábílum stendur Fiat vel fyrir sínu og -- eins og hér kemur fram -- er ágætlega hagkvæmur í akstri.

Ég get ekki stillt mig að bísa hér frá Jeremy Clarkson, þeim orðhvata starfsbróður mínum úr Top Gear, upphafsorðum hans í umsögn um Fiat Panda (timesonline.co.uk): „A little while back I tested a bog-standard Fiat Panda and while it was slower than a real panda, it was also a damn sight cheaper to buy or run. So on balance, I liked it very much.“

Hér er Clarkson að tala um grunngerðina af Fiat Panda, með 1,2 60 ha bensínvél, og til að gæta allrar sanngirni og firra mig því að vera vændur um að slíta orð hans úr samhengi, fer næstum allur afgangur umsagnar hans í að tala um hve hættulegt er að vera á of kraftlitlum bílum á hraðbrautunum -- sem að mínu viti á ekkert sérstaklega við um Fiat umfram aðra bíla með kraftlitlar vélar.

En ég vil líka benda á að Fiat Panda 1,3 Multijet en 70 ha og dísill í þokkabót, og þó ég hafi ekki ekið þessum tiltekna bíl með þessari tilteknu vél (ennþá -- stendur vonandi til bóta) veit ég af reynslu af öðrum bílum að dísilvélarnar frá Fiat eru hreint afburða skemmtilegar og hafa reyndar ratað í bíla fleiri framleiðenda heldur þeirra suður í Tórínó, en eins og allir vita er Fiat skammstöfun fyrir Fabbrica Italiana di Automobili Torino.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir

Ég hef nú ekki mikinn áhuga á sjálfrennireiðum en engu að síður er Top Gear einn fáum sjónvarpsþáttum sem ég reyni að horfa á, enda eru það stakir snillingar sem sjá um þá þætti.  Hvað Fíatinn varðar þá er hins vegar rétt að Fiat er ekki "inn" og hefur líklega aldrei verið "inn" á Íslandi.  Íslendingar vilja ekki litla og sparneytna bíla, þeir vilja stóra bíla, stærsta bílinn takk fyrir.  Skítt með það hvað hann eyðir miklu og hvað hann kostar, hann má bara ekki vera minni eða kraftminni en bíll náungans.  Ég verð nú samt að viðurkenna að ég hef þessa Fíat-fóbíu eins og líklega svo margir aðrir þannig að þegar ég þurfti að fjárfesta í bíl eftir aldeilis indæla, bíllausa dvöl í útlöndum, þá leit ég ekki tvisvar á Fíat, því eins og maður hefur svo oft heyrt þá er Fíat "ítalskt drasl" og eins og alþjóð telur sig vita þá kunnar Ítalir að búa til pizzur, pasta og vín en ekki bíla, eða svo er sagt.  Því fór það svo að, þrátt fyrir falleinkunn kumpánana í Top gear, fjárfesti ég í litlum Peugeot enda ávalt hrifnari af Fransmönnunum en Ítölum.  Það má nú samt vel vera að Fíat sé ágætis bíll en fallegur er hann ekki.

Þar með læt ég lokið mínum amatör pistli um bíla, enda er ég meira inn í málefnum ferfætlinga en ferhjólungua

Kveðja að norðan

junior

Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir, 9.8.2007 kl. 13:11

2 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Blessuð og sæl, Gunnfríður Elín,

jú, sú var nú tíðin að Fíat var „inn“ á Íslandi, talsvert vinsæll á þriðja áratug síðustu aldar og raunar nokkkuð fram á þann fjórða, þar til Bifreiðaeinkasala ríksins skrúfaði vandlega fyrir innflutning á bílum…

Síðan kom aftur öflugur kafli um eða upp úr 1970, með Fiat 127, 128 og 132. Gallinn var sá að þeir bílar reyndust misvel, einkum 128, auk þess sem ryð spillti mikið fyrir rykti Fíatbíla sem raunar margra fleiri á þeim árum. Svo kom góður kafli aftur á níunda áratugnum þegar Fiat Uno seldist eins og heitar lummur. Eins og hjá öðrum framleiðendum bílar bar eitthvað á mislukkuðum eintökum og það var ekki sparað að blása það upp, jafnvel þótt að hluta til gætu eigendur sjálfum sér og sínum slóðaskap í viðhaldi og eftirliti um.

Fóbíur gagnvart einstökum tegundum eða týpum eru viðloðandi og fjandanum erfiðara að losa fólk við þær, þó þær séu í rauninni alveg út í bláinn. Sumir hafa t.d. algjöra frankófóbíu, sem þú virðist til allrar guðslukku laus við. Ég vona að Pusjóinn þinn reynist þér vel og hef enga ástæðu til að ætla annað, þrátt fyrir gasprið í þeim toppgíruðu. Sjálfur hef ég engu síður dálæti á Renault en Peugeot og annar tveggja bíla hér í hlaðinu er af þeim uppruna, genginn vel á 8. ár en ber aldurinn afar vel.

Ég veit ekki nákvæmlega hvar í sveit þú átt heima, en flýgur í hug að Fiat Panda 4x4 hefði getað verið kjörbíll fyrir þig á éljasömum vetrardegi…

Það er bull að Ítalir kunni ekki að búa til bíla. Sumir vilja taka Ferrari til marks um það. Mér finnst Fiat duga alveg og standa fyrir sínu og ekki má gleyma Alfa. Reyndar eru þetta allt merki sem Fiat á og að kalla ítalska bíla drasl er bara vanþekking.

En svona er þetta. Einu sinni fórum við Álfheiður í þriggja vika forláta frí til Grikklands, bjuggum á hóteli skammt utan við Aþenu. Þar mátti nú setja út á ýmsa hluti, tæknilega og öðru vísi. En þegar við leyfðum okkur að finna að einhverjum var viðkvæðið yfirleitt það sama, með axlayppingu og handarhreyfingu sem táknar vonleysi: „Italiano!“

Og Grikkir eru þarna næstu nágrannar.

Með kveðju norður

Sigurður Hreiðar, 9.8.2007 kl. 17:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.9.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 306241

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband