Að skoða heyfenginn

Helga R. var að blogga um löngun sína og kannski þeirra hjóna beggja til að fá að sofa í hlöðu á einhverjum ókunnugum bæ. Hugsanlega hef ég misskilið þetta og hún hefur í raun aðeins verið að skrifa um einhvers konar afturhvarf til fortíðar, til þess tíma er fólk tók ekki hvert öðru með varúð og fyrirfram höfnun er það hittist, af ótta við að eitthvað annað felist að baki samskiptunum en það sem við auganu blasir.

Ég vakti um tíma í nótt og var að hugsa um hlöður með heyi og gistingar í þeim. Sjálfur gisti ég einu sinni í hlöðu sem ungur maður en það var af því ég vildi ekki berja upp þar sem ég kom að bæ eftir miðnætti heldur fór þangað sem ég vissi heyið mjúkt. Það var mjúkt en það hafði líka hitnað í því og rakinn steig upp; ég hafði ekkert að vefja um mig annað en Vinnufatagerðarúlpuna mína með gæruskinni og gekk illa að sofa og halda á mér hita án þess að fara þangað sem rakinn af heyhitanum hafði myndað myglu ofan á. Strá, rekja og næturkuldi voru áleitin og þetta var ekki góð nótt. Húsfreyjan las mér pistilinn um morguninn vildi helst hátta mig ofan í hlýtt rúm og sofa almennilega amk. fram um hádegi. En þá var kominn nýr dagur og verkefnin biðu, og þetta var á þeim tíma sem lélegur nætursvefn eina nótt var í sjálfu sér aukaatriði, maður svaf bara missvefnið upp næst þegar vel stóð á og svaf þá kannski heilan sólarhring næstum í lotu og þá hafði allt jafnað sig.

En það rifjaðist líka upp fyrir mér sumarið sem pabbi var á spítala og við mamma vorum ein með búið. Unglingurinn þjáðist af ábyrgðarkennd, hefur m.a. síðan verið veðurhræddur út yfir alla skynsemi. Það stafaði ekki síst af því að hlaðan heima var enn ekki risin og notast við bragga í staðinn sem var afar óhentug heygeymsla. Á honum var heldur ekki hurð sem opna mátti til að bakka þar inn heyvagni heldur voru hlerar negldir fyrir og á sumrin voru þeir losaðir frá með kúbeini og skákað til hliðar, þungir voru þeir og ekki fyrir ungling að bera þá frá og fyrir upp á einsdæmi. Hlöðubragginn stóð því opin í þann endann mestan part heyanna svo framarlega sem veður leyfði, en á þessu þurfti að hafa stöðuga gát og hugsun.

En braggagaflinn gapti opinn við Vesturlandsveginum langtímum saman yfir sumarið og nánast aðeins gamli hitaveitustokkurinn sem nú er búið að mola niður á milli. Eitt sinn vaknaði strákurinn upp úr þurru á aðfaranótt sunnudags og leit út um gluggann, það var orðinn kækur að gá til veðurs og líka vera viss um að allt væri með felldu, þetta var á þeim árum sem laugardagsböllin í Hlégarði voru regla og fyrir hafði komið að þeim fylgdi nokkkurt ónæði þó nokkrir kílómetrar væru á milli.

Og -- í þetta sinn stóð drossía uppi á vegi, beint upp af hlöðugaflinum. Strákurinn þekkti þessa drossíu, þetta var dods fjörutíu, fallegur bíll og vel við haldið, eigandinn var strákur úr Kjósinni, ágætur náungi og viðfelldinn. En af hverju stóð bíllinn þarna? Gat verið að hann hefði bilað?

Þetta kostaði vangaveltur. Átti heimamaðurinn að drífa sig í brókina og vita hvort hann yrði einhvers vísari? Það var farið að elda aftur og ekki ýkja langt þar til kæmi að morgunmjöltum hvort eð var. En það var líka hægt að kúra sig niður í hlýtt bólið og kannski skreppa aðeins inn í draumalandið í millitíðinni.

En þó aldur heimamannsins væri enn skrifaður með tölustafinn 1 fremstan vissi hann af reynslu að hann myndi ekki ná að festa blund aftur nema fullvissa sig um það með gönguferð í nóttinni að allt á bænum væri eins og það átti að vera. Bíll hafði að vísu verið kyrrstæður fyrr uppi á vegi lengri eða skemmri tíma án þess að það kæmi bænum við -- en það var eitthvað dularfullt við að akkúrat þessi bíll var þarna akkúrat núna…

Ég tók að tína á mig leppana, fyrst skyrtuna með öllum þessum hnöppum að hneppa, svo sokkana og loks buxurnar. En -- hvað var nú þetta? Þarna var fólk á ferð -- og ég sá ekki betur en það kæmi úr hlöðubragganum. Jú, þetta var strákurinn úr Kjósinni, og dama með honum. Þau leiddust þétt. Hann hjálpaði henni upp á hitaveituna, hún beið hans ekki þar heldur hafði sjálf stigið niður af hinum megin þegar hann var kominn upp á stokkinn og gekk á undan honum upp að bíl. Mér sýndist hún tína strá úr hárinu. Settist inn í framsætið, hann við stýrið. Dodsinn var ræstur, hljóðlega fannst mér, og ekið gætilega af stað í áttina til Reykjavíkur.

Hvað með það? Heyið svo mjúkt í hlöðunum er, hollust er ást á frónsku -- eitthvað á þessa leið var ort nokkrum árum síðar. En nagandi ábyrgðartilfinning heimamannsins knúði hann til að vekja heimilistíkina Tátu og rölta með henni út af hlöðu. Hann hafði að vísu trú á því að strákurinn úr Kjósinni færi varlega með eld, en kannski hafði daman kveikt í sígarettu og rétt að gá að því hvort ekki væri allt í lagi… Hann sá svo sem ekki með vissu að legið hefði verið í heyinu en gekk út frá að svo hefði verið -- varla hafði þetta fólk bara verið að skoða heyfenginn…

gh-15

Auðvitað var allt með felldu. Kýrnar voru mjólkaðar með fyrra fallinu þennan morgun og smám saman fyrntist yfir þetta atvik. Maður þóttist nú stundum smá merki þess í hlöðunni að einhver hefði látið fara vel um sig þar og gert sér bæli. Það var ekki síst um helgar. Samt merkilegt að þetta var í eina skiptið mér vitanlega sem nokkur á bænum beinlínis sá fólk leita sér athvarfs í hlöðunni með þessum hætti, eins og þetta lá beint við.

Ég man ekki hvort það næsta vor, eða vorið þar eftir, sem pabbi var einhvern tíma sem oftar að hirða moðið úr jötunum í fjósinu og sá þá glampa á eitthvað í jötubotninum. Hann beygði sig eftir því og dró upp kvenmanns-gullúr. Það var óskemmt með öllu, læsingin á keðjunni hafði bara opnast. Roamer minnir mig það héti. Það var dregið upp -- þetta var í þann tíð sem úr gengu fyrir fjöður -- og tók óðara til að mæla tímann sem fyrr. Einhverjum spurnum var haldið uppi um hugsanlegan eiganda en komu fyrir ekki og á endanum var úrið spennt á úlnlið móður minnar og ég held að þar hafi það verið það sem hún átti ólifað.

-- Ég hafði aldrei sagt frá fólkinu úr dodsinum. Ég hafði hitt strákinn úr Kjósinni nokkrum sinnum eftir þetta á böllum í Hlégarði og hann var alltaf með sömu dömuna. En það var örugglega ekki sú sem ég sá hann koma með út út hlöðbragganum heima seint um sumarnótt. Síðan voru líka liðnir margir mánuðir. Átti ég að fara að ræða þetta við hann og þar með rugga við einhverju sem mér kom ekki við?

Þeirri spurningu er ósvarað enn.

-- Ég ætla að setja mynd með þessu bloggi, ef það tekst. Ég er eitthvað óklár á þeirri tækni enn. Og hef ekki fundið út hvernig á að setja myndatexta með þeim myndum sem mér hefur þó tekist að leggja með. Því set ég hann bara hér: þetta er mynd af heimkynni unglingsára minna, að vísu komin hlaða og fjós úr varanlegu efni, sem var ekki þegar ofanskráð saga gerðist. Hins vegar sér í bragga tvo lengst til hægri á myndinni. Sá sem er nær okkur er hlöðubragginn sem sagan snýst um.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband