Dýralíf á höggleiksvellinum

Löngum hef ég verið þakklátur þeim blöðum sem hafa sérumfjöllun sína í sérstökum kálfum sem hægt er að kippa út úr blaðinu og leggja strax til hliðar -- eða lesa sér til uppfærslu og upplyftingar, ef svo vill verkast.

Algengasta hlutskipti íþróttakálfs Mogga hefur verið að lenda beint í frálagsstaflann. Í morgun vissi ég þó ekki fyrr en ég var farin að horfa á mynd af konu sem stóð kengbogin með prik í hendi og virtist ætla að fara að slá í egg í hreiðri. Svo sá ég að þetta var víst golfkúla og konan var sögð úr Kili í Mosfellsbæ. Aha, sveitungi að gera það gott, hugsaði ég og var farinn að lesa áður en ég vissi af -- en, bittinú, ég skildi bara takmarkað.

„…sjaldgæft að menn pútti ofan í glompu…“ „…þaðan náði hún að slá hann úr frekar þungum karga…“ „…ég kenghúkkaði drævið…“ „Það var því ekki um neitt annað að ræða en negla á pinna…“

Samt sigraði þessi kona á Íslandsmótinu í höggleik, sem virðist e-s konar afbrigði af golfi, enda krækti hún sér amk. einu sinni í „glæsilegan fugl“ til að stympast á við „skolla“ -- já, það er víst talsvert dýralíf á höggleiksvellinum.

Sú sem varð í öðru sæti í þessum slag var ekki fyllilega ánægð með frammistöðu sína, enda svo að sjá að hún hafi ekki slegið neina himneska tóna: „Járnaspilið mitt í dag var það lélegt að ég setti mig aldrei í fuglafæri…“ -- Gling gló!

Nú vill svo til að ég hef dálitla hugmynd um hvað flest af þessu þýðir. Það stafar af því að ég hef um dagana þurft að þýða úr erlendum málum ærið fjölbreytt efni og m.a. lenti ég einu sinni í að þurfa að þýða lýsingu á flóknum golfleik, löngu áður en þessi íslensku heiti um sum fyrirbrigði golflistarinnar voru fundin upp. Löngu gleymt sem betur fer hvernig ég klæmdist á því verki en golfarar vinir mínir ætluðu að drepast úr hlátri þegar ég var að bera undir þá hugmynd mínar um að kalla hlutina fugl og örn og fjanda og rekkylfu og grænið og holuhögg, en snarhættu að hlæja og urðu þungir á brún þegar upp komst að ég kallaði kúluna bolta. Hún var sko ekki bolti, heldur kúla, það hlaut hver maður að geta skilið. En nú sé ég ekki betur að kúlan sé mestan part orðin að bolta, sbr. umfjöllunina um höggleiksmótið í Mogganum í dag -- sem ég er búinn að lesa spjaldanna á milli (ef það væru einhver spjöld!)

En á einu gataði ég alveg í íþróttamogganum í dag -- hefur sennilega ekki verið í þýðingu minni forðum. Það er í frétt um mann sem var dæmdur úr keppni fyrir afglöp sem hann virðist ekki einu sinni hafa vitað af sjálfur. En þar stendur: „…á laugardeginum fékk hann lausn án vítis og þurfti að droppa boltanum…“

Hann fékk lausn án vítis, en var samt víttur, eða hvað? Að droppa boltanum -- er það ekki einfaldlega að láta hann falla?

Hér droppa ég vangaveltum um þetta efni.

P.S. Meðan ég er að velta þessum vöngum berast mér upplýsingar um að kona þessi sé ekki Mosfellingur heldur aðeins félagi í höggleiksklúbbi bæjarins. Hún mun hins vegar eiga heima í Grafarholti sem út af fyrir sig er næstum Mosfellsbær, ekki nema rúmlega hálf öld síðan Reykjavík tók þann landspart eignarnámi af Mosfellshreppi þegar ekki var hægt að hafa meira land af Seltjarnarneshreppi og Reykjavík að verða landlaus…


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband