Ég er ekki að skilja

hví fólk undrast að ég er ekki að vera (eða: verandi) glaður yfir svokölluðum þýðingum í hverjum öll orð eru íslensk og eru að verða fundin í Íslenskri orðabók og hef engu að síður þá tilfinningu að sé lesandi enskan texta. Þetta fólk segir að það sem ég hef að segja um þetta sé bolaskítur.

Kona nokkur hringdi í mig nokkuð stórorð yfir því að ég léti skína í slíkar aðfinnslur varðandi íslenska útgáfu á Harry Potterbókunum. (Í bloggi mínu þar um tók ég þó fram að ég ætlaði ekki að fullyrða að svo væri, því ég nennti ekki að leggja vinnu í að rökstyðja það.) En til gamans ætla ég að segja hér stutta sögu um hvernig getur farið fyrir þeim sem lenda í þýðingagildrum.

Bill Holm er mörgum Íslendingum að góðu kunnur, hreinræktaður vestur-Íslendingur, kom fyrst til Íslands í lok 8. áratugarins og þá sem sendikennari við enskudeild HÍ, okkur til óblandinnar ánægju sem þar kynntumst honum. Hann kenndi fyrst á vormisseri en vildi komast í nánari kynni við íslenskuna og réði sig því um sumarið í kaupavinnu á íslenskan bæ -- setti það eitt ráðningarskilyrði að þar væri enginn enskumælandi svo hann yrði að sperrast við íslenskuna sjálfur.

Þegar kennsla hófst aftur um haustið fór hann að segja okkur sögur úr kaupavinnunni -- afbragðs sögumaður, eins og þeir vita sem til þekkja. Hann lét vel af dvölinni og þóttist hafa tekið góðum framförum í íslenskunni. Svo góðum sagði hann, að einu sinni lét hann glepjast til að taka þátt í rökræðum -- á íslensku -- um trúmál.

Á einum stað, sagði Bill, þóttist ég alveg öruggur og sagði: Það er bara svona með þrenninguna, faðir, sonur og heilagur draugur… -- en lengra komst ég ekki, því það gall við glymjandi hlátur. (Bill sagði okkur þetta raunar á ensku sem jók enn á dramatíkina.) Svo ég þagnaði og fór að hugsa: Hvað sagði ég vitlaust? Father = faðir, son = sonur, holy = heilagur, ghost = draugur…

-- Þetta á ekki aðeins við um orð. Heilar málsgreinar geta farið þannig í þýðandann að hann komist ekki upp úr enskufari þeirra. Ég þekki þetta sjálfur eftir þá lífsreynslu/starf að hafa þýtt fjölda bóka og megnið af tímaritinu Úrvali í nokkra áratugi samtals -- fyrir utan ýmislegt annað. Og þykist því geta nokkuð trútt um talað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alltaf gaman að góðum þýðingum.  Var t.d. fyrir nokkru að lesa íþróttafrétt á mbl um enska meistaramótið í golfi.  Þar var vitnað í frægan kylfing, Montgomery, og í tilefni af undangengnu rigningarveðri á Bretlandseyjum sagðist hann vonast eftir "sanngjörnu" veðri.

Sjálfur veit ég ekki hvað sanngjarnt veður er, en tel þó víst að golfarinn hafi vonast eftir "fair weather", sem ég hef hingað til haldið að væri bjartviðri.

Finnst best að lesa enskar bókmenntir á ensku, íslenskar á íslensku - þá get ég við engan annan sakast en sjálfan mig ef ég misskil hlutina rangt.......

Gunnar (IP-tala skráð) 26.7.2007 kl. 11:14

2 identicon

Ertu viss um að þeir"sem eru ekki að skilja"að þú "sért ekki að vera glaður"yfir þýðingum"séu að skilja" hvað þú átt við?Ég er alls ekki viss. A.m.k. undrast ég sífellthvað ótrúlega mikið af"bolaskít" kemst í gegn hjá prófarkalesurum.  Með kveðju      G.Hr. 

Gunný (IP-tala skráð) 26.7.2007 kl. 11:44

3 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Æ, Sigurður. Þeir sem málið varðar taka ekkert mark á tuðinu í okkur.

Hlynur Þór Magnússon, 26.7.2007 kl. 12:32

4 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Ein fyrrum samstarfskona mín bjó sig undir að borga reikning á veitingastað. Þjónninn spurði: „Hvar voruð þið að sitja?“

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 26.7.2007 kl. 12:37

5 Smámynd: Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir

Ég stend í þeirri trú að um trúmál sé aldrei hægt að rökræða þar sem engin rök séu (og eigi ekki að vera) fyrir trú.  Því var það ljóst frá upphafi að honum Bill (eða Billa ef við viljum hengja okkur í þýðingar) myndi ekki farnast vel í þeim efnum.  Góð saga engu að síður

Kveðja að norðan

Gunnfríður jr. 

Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir, 26.7.2007 kl. 16:00

6 identicon

,,Orð af vísidómi, sem ég harðlega gæti sammælst við meira."

 Það er örugglega alveg spes með hann Harald Pottara hversu mikil pressa er á þýðendunum. Uppáhalds þýðingarvillan mín er samt úr myndinni 'One False Move' þar sem "christian people" var þýtt sem "jólafólk"

Steinn (IP-tala skráð) 26.7.2007 kl. 16:17

7 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Takk öll saman.

Sammála ykkur öllum meira og minna:

Eirný Vals, ég stend mig oft að því ef ég les smellinn texta á erlendu tungumál að leika mér að því í huganum hvernig hægt væri að ná galdri hans á íslensku.

Ingibjörg Rósa, það er margt gott í þýðingum á Harry Potter, sennilega fleira en það sem er aðfinnslu vert. En svona er þetta, maður tekur ekki eftir tveimur höndum með tíu fingur heila -- maður tekur eftir plástruðu hendinni.

Gunnar, þetta er nú með því besta! Minnir dálítið á Staben herhöfðingja, sem var tíður gestur í íslenskum fjölmiðlum meðan erlendar fréttur komu aðallega frá norsku fréttastofunni NTB. Þar var nefnilega oft vitnað í upplýsingar frá „General Staben“ -- ætli það standi ekki fyrir hershöfðingjaráðið?

Gunný og Hlynur, rétt hjá ykkur báðum.

Gurrí -- þetta er nú með því svæsnara af þessu tagi!

Gunnfríður Elín -- kannski er þetta rétt hjá þér, að trúin taki við þar sem rökin þrýtur. En ég kýs að trúa með þeim rökum sem ég tek gild í því efni, og, trúðu mér, ég hef gild rök! Ég veit ekki hvernig var með Bill. En ef ég ætti að þýða nafnið hans myndi ég kalla hann Villa -- Bill er stytting úr William. Ég veit ekki hvaða rök hann hefur fyrir trúnni, en ég veit að hann hefur gaman af að rökræða, um nánast hvað sem er! Og svo yrkir hann ljóð þess á milli.

Steinn, þetta er alveg yndislegt. Ég get sennilega ekki toppað þetta en einu sinni fékk ég í þýðingu til yfirlestrar: hann greip dregilinn af kjallaragólfinu og vafði um sára höndina. Ég fletti upp í frumtextanum: He grabbed a towel from the basement line and wrapper around his wounded hand.

Góða nótt!

Sigurður Hreiðar, 26.7.2007 kl. 23:14

8 Smámynd: Ívar Pálsson

Má ég bæta við kostulegum kvikmyndatexta hér á landi? Maðurinn var að reyna við dömuna á veitingahúsi og hún spyr: "Is this a pick- up? (sbr. pick-up line).   Textinn var: er þetta pallbíll?

Ívar Pálsson, 26.7.2007 kl. 23:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband