Engar pöddur í Cockroach Camp!

Á ljótasta stað sem á landinu hægt var að finna/þeir leigðu sér skika, og þar var svo byrjað að vinna.

Þessi vísa hefur setið í mér í hartnær hálfa öld. Hún var þannig til kominn að við unnum saman á Keflavíkurflugvelli eitt sumar við Dagur Þorleifsson, þáverandi vinir og skólafélagar („samnemendur“ væri það víst kallað núna -- hver fann upp það fjandans orðskrípi? Það ætti að flengja hann!) og þegar á haugunum þar fannst talsvert upplag af fjölrituðu níðkvæði um Suðurnesin almennt og umráðasvæði U.S. Navy kringum flugvöllinn sérstaklega gerðum við okkur til dundurs í nöturlegum svefnklefa okkar í Seaweed að snúa því á íslensku.

Allt er nú kvæðið mér gleymt utan þessi eina vísa, sennilega af því mér hefur alltaf þótt hún öfugmæli. Sá sem hefur þurft að vera kominn til vinnu tuttugu mínútur yfir sjö á hverjum einasta morgni heilt góðviðrissumar og getað skotrað augum yfir útsýnið ofan af velli getur ekki skrifað upp á að þetta sé ljótasti staður á landinu -- öðru nær. Og sá sem ekki sér fegurð í neinu nema grasi og gróðri -- jah, hann á eitthvað bágt.

Raunar finnst mér æði margt með öfugmælum sem sagt hefur verið um þetta blessað athafna- og íbúðasvæði sem hefur verið afgirt fyrir Íslendingum í hálfa öld eða svo. Fólkið þar hefur áreiðanlega ekki verið jafn fávíst og illviljað og margir hafa viljað vera láta, myrkraverkin þar framin ekki líkt því jafn mörg látið hefur verið liggja að, spillingin sennilega ekki heldur.

Þegar fyrir lá að nýta húsnæði þarna fyrir Íslendinga og koma upp e-s konar háskólaþorpi var því líka fundið flest til foráttu. M.a. átti rafmagn lagt eftir amrískum staðli að vera stórvarasamt ef ekki lífshættulegt. (Að vísu munu Kanar eina þjóðin sem smíðar sérstakar raf-mublur til að deyja í, svokallaða rafmagnsstóla, en þeir eru víst ekki á almennum markaði og aðeins útvaldir fá að enda ævi sína í þeim -- en þeir fá það líka hvort sem þeim líkar betur eða verr.) En ekki hafa farið sérstakar sögur um heimsbyggðina af því að óviljandi rafmagnsslys séu fleiri í Amríku en henni Evrópu gömlu -- þar sem bloggari hefur með eigin augum séð marga ærið kynduga raflögnina/tenginguna.

Það nýjasta í þessum efnum er að byggðin sem Kanar yfirgáfu tregalaus þarna á Vallarsvæðinu, og gagnrýnendur gáfu heitið Cockroach Camp, er með því pöddulausasta sem gerist á landinu. Það er ekki einu sinni nefnt að þar finnist krossköngulær sem hafa svo sannarlega að pakkað inn í vefi sína sum húsin á höfuðborgarsvæðinu.

Krosstré bregðast eins og aðrir raftar, stendur einhvers staðar. Nú er bara að vita hvort framhaldið rætist með úrtölumennina: Og allra bestu þagna stundum kjaftar…

Atént er auto þagnaður (í bili).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Allt er þetta hagsmunapot og peningagræðgi.  Þarna er svo augljóst að einhverjir lobbyistar rafiðnaðarsambandsins hafa séð glitta í gull.  Alltaf undrast ég jafn mikið hvað góðum árangri svona nöldrarar og fámennir þrýstihópar ná.  En...þetta er atvinnuskapandi og jafnvel landsbyggðavænt, svo maður ætti kannski að snobba fyrir slíku framtaki.

Stormur í kaffibolla, sem kostar tugmilljónir og engin ábót.

Jón Steinar Ragnarsson, 26.7.2007 kl. 02:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband