23.7.2007 | 12:57
Harry Potter: náttúrulaus
Afrekaði um daginn að sofna í bíó undir Harry Potter og Fönixreglunni. Ekki bara einu sinni, heldur tvisvar. Þetta er vottfest.
Myndin er jú full af tæknibrellum, sumum mjög fínum. Annars er þetta aðallega hávaði, garragangur og darraðardans. Sum atriði gjörsamlega út úr kú, eins og kossasenan. Ævintýrið um Harry Potter er, eins og söguhetjan sjálf, gjörsamlega náttúrulaust – svo hvernig stendur á þessari kossasenu? – Raunar er hún alveg náttúrulaus líka, svo þetta er kannski ekki stílbrot. En hverju tengist hún?
Ævintýri Harrys Potters eru alls ekki leiðinleg út af fyrir sig. Ég þrælaðist í gegnum tvær eða þrjár fyrstu bækurnar. Á íslensku, því miður. Hvers vegna því miður? Ja – ég ætla ekki að segja að það sé vegna þess að þær séu illa þýddar því ég nenni ekki að pæla í gegnum þær aftur til að rökstyðja það. Ég ætla heldur ekki að segja að það sé vegna þess að mér leiðist að lesa texta þar sem öll (eða langflest) orðin eru að vísu finnanleg í íslenskri orðabók, en engu að síður er þetta eins og að lesa ensku – ég ætla ekki að segja þetta af því ég nenni ekki að pæla í gegnum þetta allt til að rökstyðja það.
Það sem ég ætla hins vegar að segja er að þessi blessuð Rowling-kona er ekki bara með ritræpu – hún er með rit-renniskotu. Ef hún hefði ráðið sér góðan ritstjóra og skorið textann niður um 40-50% hefðu bækurnar um Harry Potter getað orðið býsna góðar. – Þessi fullyrðing þarf engan sérstakan rökstuðning.
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.5.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Undarlegt að þú skulir segja þetta þar sem að bækurnar eru eins vinsælar og raun ber vitni. Annars hljótum við hin aðdáendurnir, milljónir, að vera með býsna lélegan smekk samkvæmt þínum bókum. Hvernig er hægt að taka mark á svoleiðis?
Það er í sjálfu sér ekkert sérstaklega heillandi við bíómyndirnar, enda hafa þær ekki að geyma sömu töfra og bækurnar, þá skoðun held ég að ég sé ekki ein um.
Anna Lilja, 23.7.2007 kl. 22:46
Lastu ekki það sem ég skrifaði, Anna Lilja? „Ævintýri Harrys Potters eru alls ekki leiðinleg út af fyrir sig.“ Svo umsögn mín segir ekki að þið milljónirnar hafið lélegan smekk. Hitt er annað mál að það er hægt að stofna til múgæsingar um allan fjandann - bækur (Harry Potter, Da Vincy lykilinn) eða týnda hunda, eða krakka sem langar í fæting og búa til eitthvað eins og Saving Iceland.
Verður ekki hver að hafa smekk fyrir sig?
Sigurður Hreiðar, 23.7.2007 kl. 23:48
Jú aldeilis er það rétt hjá þér, Sigurður. Afleggjararnir mínir eru að vísu orðnir 12 og nærri níu ára, en þegar smekkárin gengu yfir (tókstu eftir að ég talaði um þau eins og stríðsárin..?) þá hétu einföldu smekkirnir PalliMagg. Sbr ég hef mjög einfaldan smekk...
En þetta var skrípaskrepp frá þeirri staðreynd að bæði bækurnar og myndirnar um Harry Potter eru óhemju langt mál um lítið efni.
Þegar heimsbókmenntirnar þurftu mest á aðstoð að halda, þá sannaðist hið fornkveðna að þá voru flestir hvergi.
Og sá Íslendingur sem hefði getað reddað málunum er kominn á safn á Reykhólum.
Helga Guðrún Eiríksdóttir, 24.7.2007 kl. 04:10
Sæll sjálfur frændi og bestu þakkir fyrir innlitið.
Af þér hef ég að sjálfsögðu alltaf vitað líka þó við höfum aldrei hist, fyrir því hefur hún amma mín og nafna séð. Feginn hefði ég einnig þegið af þér kaffið ef mögulegt hefði verið enda fátt betra í byrjun dags en góður bolli af kaffi. Greinin mín sem þú spyrð um er grein sem ég er að berja saman um rannsókn mína á uppruna og erfðauppbyggingu íslenska hrossastofnsins. Fyrsta grein af 3-4 sem ég þarf að fá birtar á leið minni að doktorsnafnbót.
Svona að lokum langar mig að benda á það að hvort sem um er að ræða, of langar eða stuttar, góðar eða slæmar, ræpu eða renniskotu (skemmtilegt orð sem ég hef ekki heyrt áður). Rowling og Potter fengu börn jafnt sem fullorðna til að slíta sig frá tölvu og sjónvarpsskjáum og lesa bækur
Bestu kveðjur að norðan
Gunnfríður jr.
Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir, 24.7.2007 kl. 10:20
Það sem ég meinti með náttúruleysi kossins: Samdráttur Harrys og dömunnar átti engan aðdraganda. Né eftirmála. Hann bara gerðist, eins og þegar einhver rekur tærnar í, hrasar en nær að rétta sig aftur.
Til þess að þetta væri lógíst hefði ég við sjá einhvern samdrátt fyrst og einhver merki þess einhvern tíma fyrir The End að einhver keimur hefði verið að kossgreyinu!
Sigurður Hreiðar, 26.7.2007 kl. 00:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.