Melrakkaslétta er enn á sínum stað!

Blogg mitt um þá merkilegu frétt í Morgunblaðinu á laugardaginn að árekstur hefði orðið milli tveggja bíla við Lund „á Melrakkasléttu“ fékk nokkur viðbrögð og ég tilfæri hér svar Guðrúnar Einarsdóttur:

„Ekki hef ég orðið vör við að Melrakkasléttan næði fram í Öxarfjörð og ég bý á Kópaskeri. Síðast þegar ég vissi byrjaði Sléttan austan við Kópasker og nær til Raufarhafnar. Annars þessi frétt öll vitlaus því miður, ekki bara staðsetningin að Lundur sé á Sléttu heldur var það jeppinn sem keyrði fyrir fólksbílinn, en ekki öfugt.“

Þetta grunaði mig -- og er feginn! Sléttan er sem sagt enn á sínum stað. Og Lundur í Öxarfirði á sínum.

Þetta varð þeim Sæmundi Bjarnasyni og Gísla Sigurðssyni tilefni til að minna á örnefnatilfærslu hér í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, sem sé að teygja Hellisheiði „niður undir Rauðavatn“, eins og Sæmundur orðar það. Gísli segir: „Ég hef talið það Sandskeið upp að Draugahlíð sem er brekkan sem liggur upp á Svínahraun, síðan taka við Hveradalir og þar upp af Hellisheiði.“ -- Ég held raunar að hjallinn upp frá Sandskeiði, upp á hverjum Litla kaffistofan stendur, hljóti að hafa eitthvert sérstakt heiti en Draugahlíðin taki við þar fyrir ofan -- en ég geri bara framhaldsorð Gísla að mínum: „…leiðréttið mig endilega ef ég hef lært þetta vitlaust“. 

Stundum hef ég raunar á tilfinningunni að það séu ekki bara fréttamennirnir sem hræra örnefnum til og frá heldur sé grunnurinn að ruglinu kominn frá lögreglumönnunum sem miðla fréttunum til fréttamannanna. Ég þekki það sjálfur síðan ég var í lögreglufréttum fyrir margt löngu að við þá getur átt gamli brandarinn um fulla manninn sem skreið á fjórum fótum í skini ljósastaurs og virtist vera að leita að einhverju. Hjálpsamur vegfarandi komst að því að hann var að leita að húslyklinum sínum. „Og týndirðu honum hér?“ spurði sá hjálpsami. „Nei, nei, það var þarna niðri frá,“ svaraði sá fulli og pataði eitthvað út í myrkrið. „Það er bara svo miklu betri birta hér.“

En að slepptu gamni: Við skulum endilega halda í gömlu örnefnin eftir því sem við best getum og reyna sem mest að hafa þau á réttum stöðum.

Kannski blogga ég eitthvað nánar um þetta á næstunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Góðan daginn - og góður ertu. Þetta er það sem ég sé best við bloggið.Eins og ég lauma til barna og barnabarna því sem ég kann af töluðu og rituðu máli, þá fræðir þú landslýð um örnefni og annað gagnlegt. Aumingja fólkið heldur að það sé bara að leika sér í tölvu. kv.

Helga R. Einarsdóttir, 23.7.2007 kl. 10:38

2 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Já Helga mín -- það má lengi reyna!

Sigurður Hreiðar, 23.7.2007 kl. 11:04

3 identicon

Ef ég hef tekið rétt eftir á sínum tíma þá heitir svæðið þarna á milli Bolalda, eða er það kannski sunnar?

Friðjón Axfjörð (en ekki Öxfjörð) (IP-tala skráð) 23.7.2007 kl. 16:51

4 Smámynd: Móðir, kona, sporðdreki:)

Góð skrif Sigurður.  Ég er sammála því að við eigum að nota þau örnefni sem til eru og að reyna að læra sem flest þeirra.  Mér finnst eins og að mörg gömlu nafnanna séu að hverfa.  Stjórnsýslunni er stundum um að kenna.  Sveitafélög eru sameinuð og gömlu hreppanöfnin hverfa og -byggð kemur í staðinn.  Ég er t.d. í smá basli með að segjast fara vestur í Dali.  Ég er dalamaður en ég veit eiginlega ekki lengur hvar "Dalir" eru.  Sýslan hefur stækkað, en sameiginlega sveitafélagið, Dalabyggð er ekki eins og Dalasýslan.  Sýslurnar eru að hverfa úr málnotkun okkar.  Ekki segist ég ætla að skreppa suður í Gullbringu- og Kjósarsýslu. 

Ég hef svolítið verið að velta fyrir mér mismunandi málvenjum á milli landshluta.  Í Dölum var alltaf farið fram í dal, þegar gengið var inn dalinn.  Hér norðanlands er þetta þveröfugt.  Höfuðáttirnar voru lítið notaðar fyrir vestan en hér liggur við að menn segi manni að lesa blaðagrein sem sé syðst á blaðsíðunni.  Svo er gaman að skoða á/í venjurnar.  Af hverju er maður í Reykjavík en á Húsavík.  Eins með löndin.  Á Íslandi en í Frakklandi.  Ég held reyndar að maður sé yfirleitt á eyjum en í löndum sem eru á meginlöndum.  En það gildir ekki innanlands.  Við förum t.d. út í Hrísey. 

Ég ætla að senda þér nokkra diska fljótlega, upptökur mínar eru í tölvunni, sem er í viðgerð.  

Bestu kveðjur

Eyþór Ingi 

Móðir, kona, sporðdreki:), 23.7.2007 kl. 16:59

5 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Nú þykir mér týra!  Vinsældir þínar fara hraðvaxandi. Ekki að ég sé afbrýðisöm, enda geri ég ekki ráð fyrir að þú gleymir að ég var - og vonandi er, nr.1.

Helga R. Einarsdóttir, 23.7.2007 kl. 21:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband