10.7.2007 | 13:28
Leiðinlegar jarðarfarir -- og skemmtilegar
Gurrí (allir bloggarar þekkja Gurríhar svo hún þarf ekki frekari skýringu) minntist á bloggi sínu í gær 6 ára dánarafmælis föður síns. Af honum voru sagðar kímnisögur í jarðarförinni svo syrgjendur gleymdu sér um stund og hlógu.
Þetta finnst mér mikið gott. Jarðarför er í sjálfu sér ekkert annað en formsatriði, táknræn athöfn. Grátlegt þegar prestar nota tækifærið til að prédika um trúna og guðdóminn í löngu máli og koma lengi vel hvergi nærri því sem athöfnin snýst um, persónan sem bjó í líkamanum sem nú hvílir í kistunni fyrir framan þá. Eða jarma um hana af meiri mærð en nokkur efni eru til. Vel má hafa það í huga að ef marka má fjölda vísbendinga, fornra og nýrra, er dauðinn ekki endalok heldur áfangi. Þegar maðurinn fæðist byrjar hann að deyja stendur einhver staðar og það er bara þónokkuð til í því.
Ég fór að hugsa um þetta áðan meðan ég var að sýsla hér úti og get ekki á mér setið að fá litla útrás um þessi mál núna þegar ég er búinn að sporðrenna tveimur brauðsneiðum með rúllupylsu. Ég fylgdi nefnilega tveimur vinum til grafar í sömu vikunni nú fyrir skemmstu. Þær jarðarfarir voru gjörsamlega sín úr hvorum menningarheimi.
Steinar prentari (fyrrum samstarfsmaður okkar Gurríar og Önnu Ól, svo nefnd séu nöfn) var ekki nema rúmlega sextugur. Hann hafði þó lengi ekki gengið heill til skógar en bar sig vel og gerði að gamni sínu um veikindin, vann þegar hann mögulega gat og ekki langt síðan hann var að kenna mér að pdf-a ritverk til afhendingar í prentsmiðju og ekki honum að kenna að ég kann það ekkert almennilega enn. Almennt séð ekkert alltof alvörugefinn í lífinu og prestinum tókst að láta það lifna í jarðarfararræðunni og uppskar dúndraði hlátur a la Steinar amk. tvisvar. Ég sá fyrir mér að minn maður kímdi í barminn og léti sér vel líka. Þetta var honum líkt.
Benni húsvörður (í Bifröst á sama tíma og ég var þar kennari) var kominn yfir nírætt, mikill sjúklingur og meira en saddur lífdaga. Svo mikið þekkti ég þennan frænda minn að honum hefur verið mikill léttir að því að vera laus úr fjötrum þess líkama sem þjónaði honum ekki lengur. Presturinn notaði tækifærið til að upplýsa okkur sem fylgdum honum um eitt og annað úr Biblíunni sem ég get ekki fyrir lífið tengt við Benna eða hans æviskeið, auk þess sem hann sá ekkert annað en mærðina út úr lífshlaupi hans yfirleitt. Og hefði þó mátt segja marga góða söguna um þennan öðling sem sjálfur hafði ekki á móti góðri sögu sem kíma mætti að, þó hann hlægi ekki upphátt sjálfur nema yfir keyrði. Ég hef sjálfur ekki velst um (í bókstaflegri merkingu) af hlátri síðan við gerðum það saman þrír á hlaðinu á Bifröst, Benni, Þórir Páll og ég. Þá hafði gerst sögulegur og raunar á þeim tíma sprenghlægilegur atburður, með Benna í aðalhlutverki, en það réði ekki mestu um hláturinn, heldur hve gjörsamlega fjórði maðurinn viðstaddur, Siggi bakari, var að sjá nokkuð fyndið við þetta.
Kannski á maður að skilja eftir forskrift að sinni eigin jarðarför. Ólíklegt samt að hún verði uppi á borðinu til að fara eftir þegar þar að kemur. En í stuttu máli: Enga prédikun persónunni mér óviðkomandi. Rekja lífshlaupið í stærstum dráttum (fljótlegt) en reyna svo að lýsa þessari persónu með því að rifja upp skemmtileg og spaugileg atvik. Þurfa ekki að vera flatterandi (frekar en sagan af því þegar Steinar datt úr stiganum) ef þau eru tilefni í góða sögu og lýsandi fyrir karakterinn. Og svo nóg af söng (blandaðan kór) og annarri músík. Allir syngi með, raddað ef þeir geta (muna að taka Nú legg ég augun aftur og Ég fel í forsjá þína -- sem lítið barn voru þetta nauðsynleg vers svo ég gæti sofnað) -- og ekki væri verra ef Jónas Þórir og Hjörleifur Valsson tækju saman Two Guitars einhvers staðar í athöfninni.
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ef ég verð ekki dauður sjálfur þegar málefnið ber á góma skal ég reyna að muna þetta ;)
Þórður Björn (IP-tala skráð) 15.7.2007 kl. 01:38
Þakka þér kærlega fyrir, Þórður Björn. Ég veit að ég á góða að!
Sigurður Hreiðar, 16.7.2007 kl. 16:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.