3.7.2007 | 12:55
Krikri og heilagur Theódór
Úr því þið eruð nú orðnar tvær sem lesið bloggið mitt amk af og til langar mig að setja hér inn litla ferðasögu. Líka til að vita hvort ég get sett myndir þarna inn svo lag sé á. Eða hvort ég þarf að minnka þær. Ein af myndavélunum mínum er 10 megapixla og myndirnar úr henni eru jah, dálítið stórar eins og þær koma fyrir af skepnunni.
En á dögunum gripum við hjónin hopptilboð í viku til Krítar. Höfðum aldrei komið þar. Þetta var gott tilboð og svo langaði okkur líka að sjá hvernig færi um Láru frænku sem vill helst ekki annars staðar vera. Og er þess vegna þar.Eins og gerist í hopptilboði ræður maður ekki sínum samastað. En við frú Álfheiður erum jafnan heppin með gistingu, með örfáum undantekningum (eftirminnilegum) en það kemur ekki að því fyrr en síðar kannski. Fengum inni á Antonis á Kato Stalos rétt utan við Chania (frb. Hanja), fína stúdíóíbúð á jarðhæð á suðausturhorni með sína veröndina í hvora átt og þannig rennihurðir utan við gluggahurðirnar að við gátum haft fína loftræstingu gegnumtrekk -- gegnum þær læstar og það kunnum við vel að meta þegar hitinn er aðallega hægra megin við 25°.
Antonis stendur nokkurn veginn í flæðarmálinu þar sem blátært Miðjarðarhafið kemur upp í fjöruna með löngum volgum öldum sem er fjarska gott því í Stalos (Kato þýðir víst bara neðri = nær sjónum) er fátt að gera annað en njóta sólar og sjávar þó annars staðar á Krít sé ýmislegt að sjá.
Eitt það fyrsta sem við tókum eftir á róli okkar um flæðarmálið var eyja nokkuð stór sem blasti við úti á flóanum. Á þessari eyju hefðist nefnilega við geitastofn sem hvergi væri til annars staðar, krikri, og til að menga hann ekki mætti fólk ekki koma út í eyju þessa utan einn dag á ári, á messu heilags Theódórs sem mun vera verndardýrlingur geitanna og eyjan heita Theódóra.
Þennan dag er hins vegar haldin mikil messa (orthodox) í kapellu sem stendur þarna uppi í hlíðinni og öllum heimilt að koma út í eyju og ókeypis flutningur frá 7.30 um morguninn fram til kl. 10. Nú vorum við svo heppin að messa heilags Theódórs er 8. júní sem var akkúrat í þessari viku okkar á Krít. Við vorum því árla uppi komin niður á bryggju í Agia (frb. Æja) Marina, sem er næst strandbær við Stalos og reyndar samvaxinn honum, rétt upp úr kl. 7. Náðum fyrsta báti út. Morguninn var unaðslega ferskur og notalegur, mannabyggðin allt um kring sofandi að mestu, kyrrð og friður, sól og logn, sjórinn sléttur og glitrandi eins og silki nema þar sem báturinn (með glerbotni) risti í hann forgengilegt munstur sitt.
Eyjan er að mestu vaxin lággróðri en sums staðar votar lágir, enda verða krikri-geitur að fá sinn vökva eins og aðrar skepnur. Stígurinn frá bryggju upp að kapellu er lítt troðinn og nokkuð á fótinn en öllum fær sem hafa báða fætur jafnlanga eða því sem næst.
Ljóst var fljótlega að ferðin út var ekki geitaskoðunarferð heldur til að tigna heilagan Theódór, kyssa á styttur og íkona og krossa sig og hlusta á prestana þylja dýrðaróð. Íslendingum sem komu til að sjá geitur og ætluðu að sjá þennan sjaldgæfa geitastofn var vinsamlega bent á að halda sig sem mest við þessa hálftroðnu sjávargötu en vera ekki að þvælast upp um fjöll. Það var eins og öllum geitum hefði verið smalað yfir á hina síðuna svo þær ekki menguðust af mönnum. Við erum því enn jafn nær um ferfætlingana.
Eftir tvo tíma þarna úti höfðum við fengið nóg og tókum bátinn til baka. Þá var verið að skipa upp í Theódóru matvælum í stórum kössum og pottum á stærð við þá sem mannætur höfðu til afnota í barnabókum bernsku minnar. Það var ekki fyrr en daginn eftir að við fréttum að eftir messu væri efnt til mikillar matarorgíu þarna í flæðarmálinu og öllum frjálst að belgja sig út á grillmat og grísku salati eða hvað það nú er sem innfæddum þykir veislumatur við hæfi heilags Theódórs.
En við settumst inn á Taverna Cactus í flæðarmálinu rétt við bryggjuna og fengum okkur indælis morgunmat, vel fram reiddan og vel fram borinn, eins og annan mat sem við fengum okkur á Krít. Horfðum út á Geitey og ræddum um morgunferðina og geitaleysið. Og leið afskaplega vel.Svo skildi leiðir. Lára tók strætó heim til sín en við Álfheiður tókum skóna í hendurnar og ösluðum heim í flæðarmálinu. Með öllu drolli tók það ekki nema tvo þægilega tíma.
Hér lýkur þessari sögu af ferð út í geiteyna Theódóru.
En ofurlítið P.S.: Lára hefur það ágætt. Leigir notalega stúdíóíbúð með góðum svölum og vinnur á Barnum já, það er bar og heitir Barinn. Eini íslenski barinn á Krít stendur við aðalgötuna í gegnum strandbæina, rétt upp af bátahöfninni í Agia Marina. Þar er opið á kvöldin og fram á nótt meðan gestir endast.
Kann ekki að setja inn myndatexta. En byrjum efst:
Horfa mun ég út til eyjar Krikri-eyjan Theódóra blasir við frá gestabæjunum vestan við Chania.
Kapellan á eynni er lítil og hýsir ekki nærri alla sem koma til messu á messu heilags Theódórs.
Prestaskrúðinn er fallegur og öðru vísi en við eigum að venjast.Eini ferfætlingurinn sem varð á vegi okkar Beðið fars til baka upp á aðaleyna Krít.Helga og Lára á Barnum. Helga á barinn ásamt manni sínum Mikael Magnússyni (sem einu sinni rak Grikkjann Sorba o.fl.).
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hvaða mál þarf ég að kunna til að fá vinnu á þessum bar?
Helga R. Einarsdóttir, 3.7.2007 kl. 13:19
Eitthvað sem hljómar eins og gríska…
Annars heyrðist mér enska, íslenska og skandinavíska ganga prýðilega líka!
Sigurður Hreiðar, 3.7.2007 kl. 13:37
Frábær saga, gott að vita af þessum stað og líka íslenska barnum. Er gott kaffið þar ... eða bara Bragi?
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 3.7.2007 kl. 16:00
Ég veit þú trúir mér ekki en alveg satt -- ég drakk bara vatn með frussi! Það fer alveg rosalega vel í mig á svona stað.
Sigurður Hreiðar, 3.7.2007 kl. 18:18
Mér sýnist vinsældir þínar fara vaxandi. ætli ég týnist ekki fljótlega í aðdáendaskaranum kv.
Helga R. Einarsdóttir, 3.7.2007 kl. 18:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.