2.7.2007 | 11:11
Af karavönum og þúfnabönum
Það var grænt og hvítt, málað með bogadregnum línum. Tjöld fyrir gluggum en með því að stíga varlega upp á beislið mátti gægjast inn milli tjaldanna á stórum glugga að framan og það var sko flott! Mér finnst núna að innréttingarnar hafi verið úr ljósu beyki en öll bólstrun stórrósótt á ljósum grunni allt fínt og fágað.
Þetta var fyrir 61 ári og við flutt til bráðabirgða í gamalt baðhús á Lágafellsmelnum. Sunnan við hlaðið var löng bygging hlaðin úr sandsteini og þar austan undir stóð lamaður þúfnabani og svo þetta dýrindis hjólhús. Car A Van stóð aftan á því með fallegu upphleyptu krómletri.
Það var víst eitthvað fínt fólk í Reykjavík sem átti þetta.
Dúaði gólfið?
Svo allt í einu var komið fólk. Var það sama sumar? Eða sumarið eftir? Man það ekki. En það var að sækja þennan Car A Van. Dyrunum var lokið upp. Hurðin var tvískipt og hægt að hafa opið að ofan þó lokað væri að neðan. Lítill strákur fékk að koma inn. Var það vitleysa, eða dúaði gólfið í alvöru? En fínt var það, maður lifandi!
Svo var því krækt aftan í stóra drossíu og ekið hægt af stað. Eftir sat aðeins minningin og tvö för eftir hjólin þar sem þau höfðu pressast ofan í jörðina.
Ég held að það hafi fallið tár. Ég er næstum viss um að þúfnabaninn tárfelldi. Hans dagur kom seinna, en einnig hann var slitinn upp úr jörðinni. Mér er sagt að hann hafi verið fluttur upp á Hvanneyri. Þessi tryggi leikfélagi minn, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, með einfalda fjöl sem sæti við lárétt stýri sem 8-9 ára pjakkur gat ekki hreyft. Samt þeysti hann um lönd og álfur á þessu traustbyggða farartæki. En þar sem það var svo óhagganlegt sem raun bar vitni varð hann sjálfur að segja: brumm brumm og hljóma þar fyrir munn þúfnabanans.
Sem hann hefur ekki enn mannað sig upp í að heimsækja.
Rjúkandi í Botnastaðabrekkunni
En næstu kynni af Karavan sem nú kallast hjólhýsi (af hverju hýsi? Hvers vegna ekki bara hús?) urðu ekki fyrr en ja, líklega 1962, eða 1963. Eða ´64? Ók þá fram á jeppa með hjólhús aftan í. Ækið stóð kyrrt í Botnastaðabrekkunni (nú Bólstaðarhlíðarbrekkunni) upp á Vatnsskarðið að sunnanverðu. Gamli herjeppinn stóð þarna með vélarhlífina opna og rauk upp úr vatnskassanum, ökumaðurinn áhyggjufullur hjá. Við snerum við og sóttum vatn á jepparæfilinn en hjólhúsið var samt of þungt fyrir hann. Á endanum var settur kaðall milli bílanna minn var þó með helmingi fleiri strokka en jeppagreyið og svo togaði einbjörn í tvíbjörn. Konunni leist ekki á þetta og hélt það væri nóg að eyðileggja jeppann. En ækið fór upp og ekki sauð á fleiri bílum í það skiptið. Veit ekki hvernig manninum með jeppann og húsið reiddi af. Ég held að hann hafi ætlað á Siglufjörð ég segi ekki margt.
Nú er önnur hver púta með svonalagað í togi og slær ekki af. Og trölljeppar með hjólhallir og gefa skít í að ekki má fara nema á 80 sé tengivagn aftan í.
Á að dinglast með þetta allt sumarið
Höfum við ekki misskilið eitthvað? Eru farandheimili af þessu tagi til þess að dinglast með allar helgar, svo ég tali nú ekki um sumarleyfið endilangt?
Ég held að svona hallir séu til þess að fara með stuttar leiðir og koma þeim þar fyrir. Hafa þær þar og ferðast út frá þeim. Kippa þeim seinna annan spotta.
Þeir sem vilja ferðast í húsinu sínu eiga að fá sér húsbíl (þarna sjáið þið enginn talar um hýsibíl), skúffubíl með gistihúsi í skúffunni eða bara tjaldvagn.
Við hin? Við bara gistum flott, á hótelum eða sveitagistingu, látum fara vel um okkur og hittum fólk. Eigum samt góðan afgang og þurfum ekki að hafa áhyggjur af að leigja misgóðar geymslur fyrir farandhúsin okkar yfir veturinn.
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 306295
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Svona er skemmtilegt. Viltu skrifa meira um það sem einu sinni var í Mosfellssveit. Og ég ætla að senda þér póst um svolítið sérstakt. kv.
Helga R. Einarsdóttir, 2.7.2007 kl. 22:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.