22.1.2012 | 13:35
Æskudýrkun og aldursfælni
Sé í dv.is að Valgeir Guðjónsson stuðmaður er sextugur um þessar mundir og ber sig upp undan því að fá hvergi vinnu.
Ég hélt þetta hefði skánað. Þegar ég var fimmtugur langaði mig að breyta til og komast upp úr því fari sem mér fannst ég vera fastur í.
Kom alls staðar að lokuðum dyrum, þó mér fyndist sjálfum ég hafa allt til að bera til að leysa þau störf vel af hendi sem ég bar mig eftir.
Ráðningarskrifstofur voru þá mjög í tísku. Þeir sem voru í leit að starfsmönnum leituðu til þeirra, létu þær auglýsa fyrir sig og moða úr umsóknum. Höfðu ekki fyrir því að skoða sjálfir hvað þeim stóð til boða.
Hjá þessum ráðningarskrifstofum fékk ég, ýmist efnislega eða hreint út, þau svör að ég væri gamall og úreltur. Rummungskerling (á aldur við mig) hjá einni þeirra ráðlagði mér að eyða ekki einu sinni tíma í að fylla út eyðublöðin.
Þar sem ég sótti um beint, án milliliða ráðningarstofa, kom margt til. Jú, algengt að ég væri gamall og úreltur. Þar að auki: Af vitlausu kyni. Eftirminnilegasta svarið var að ég væri overqualified". Komst reyndar að því síðar að deildarstjórinn sem vísaði mér svo lempilega á dyr hafði þóst viss um að ég myndi ryðja henni úr stóli á fáum mánuðum yrði mér hleypt að. Ég hefði getað reynt að fara fram hjá henni og fara í þann sem var næstur fyrir ofan hana. En ég vissi að sá hafði brugðið fyrir mig fæti í annarri umsókn svo ég lét kyrrt liggja.
Satt að segja hélt ég að þessi æskudýrkunar- og aldursfælnistefna hefði eitthvað dofnað. En sé að svo muni ekki vera. Líklega er þetta eitthvað sem fólki er kennt í æðri menntastofnunum, bæði innlendum og erlendum.
Skipt um eitt orð í fyrirsögn og texta kl. 14.21
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 306295
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þetta kemur allt heim.
Fyrir nokkrum árum (kannski 8-15) aflaði ég mér yfirgripsmikillar og víðtækrar reynslu í atvinnuumsóknum. Eins og þú lýsir, keyptu fyrirtækin og stofnanirnar sig undan veseninu með því að fá ráðningarstofur í málin. Niðurstaða mín er eftirfarandi:
Hjá ráðningarstofunum er yfirleitt tveggja manna teymi sem annast ráðninguna.
Yfirleitt er það fólk á aldrinum 30-40 ára, oftast tvær konur, en stundum karl og kona.
Umsækjandinn sem teymið velur fellur inn í skýrt dregna mynd: Er á sama eða svipuðum aldri og ráðningarteymið, með sambærilega menntun og reynslu og í mörgum tilvikum lík útlitseinkenni (t.d. ekki hávaxnari en ráðningarfólkið).
Þau eru semsagt í reynd ekki að leita að hæfasta fólkinu, heldur einhverju sem líkist þeim sjálfum.
Þetta hef ég líka séð gerast í fyrirtækjum sem sjálf sjá um ráðninguna.
Þórhallur Birgir Jósepsson, 22.1.2012 kl. 14:53
Tek undir þetta. Eftir að Iðnskólinn í Reykjavík var einkavæddur þá hættu margir starfsmenn. Tók eg þá ákvörðun 2007 og hætti vorið 2008. Þetta voru uppgangstímar í góðæri sem reyndist vera allt í plati. Fékk hærri arðgreiðslur en launaða vinnu og taldi mig vera á grænni grein. Svo kom hrunið og öll hlutabréfin mín í fyrirtækjunum einskis virði nema í einu: HBGrandi sem mylur gull.
Síðastliðin 3 ár hefi eg sótt um hvert einasta starf sem eg tel mig hafa menntun og reynslu til að gegna en alt án árangurs. Mér til mikillrar undrunar hafa jafnvel opinberar stofnanir ráðið „unglinga“ án starfsréttinda en að ráða gamlan kall eins og mig.
Þetta eru hlutskipti okkar sem áttum þátt í að byggja upp það þjóðfélag sem við töldum að væri til þess að halda uppi almenningshyggju og þjónustu. En einkavæðingarhugsunarhátturinn virðist enn víða vera samansoðinn í samfélaginu.
Við verðum að skapa okkur sjálfir möguleika, skrifa fyrir okkur líka. En aldrei hefur tekist að verða loðinn um lófana af slíkri iðju.
Góðar stundir.
Guðjón Sigþór Jensson, 22.1.2012 kl. 18:45
Ég hefði getað haldið áfram að malla í mínu fari en var svo heppinn um sextugt að vera falið dálítið sérhæft verkefni (Saga bílsins á Íslandi) sem entist mér í fjögur ár. Álpaðist litlu seinna til að taka að mér verkefni sem ég raunar réði ekki við og hætti því eins fljótt og ég gat. Meginástæðan fyrir að ég tókst það á hendur var að mér var heitið tveimur afbragðs mönnum til fulltingis en svo voru þeir reknir úr sínum störfum við fyrstu hentugleika þeirra sem stóðu fyrir gleypugangi í uppsveiflunni og voru þar með úr sögunni fyrir mér. Um þetta leyti var ég svo heppinn að vera kominn á eftirlaun, sem í raun eru samt ekki nema til að skrimta á, einkanlega eftir að „norræn velferðarstjórn“ komst til valda hérlendis. Og því reyni ég, eins og þú, Guðjón, að hafa eitthvað smávegis fyrir stafni sem gefur smáaura -- en getur líka verið ágætlega skemmtilegt.
Sigurður Hreiðar, 23.1.2012 kl. 12:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.