12.1.2012 | 15:30
Sá vægir. . .
Var hann að leika? Mér er sagt að hann geti verið býsna góður leikari. En það skal nokkuð vera að geta komið jafn bjálfalega fyrir og þessi blessuð borgarstjóranefna höfuðborgar allra landsmanna gerði í Kastljósi RÚV í gærkvöld. - Hann komst annars þó nokkuð nærri því, talsmaður MAST sem sat í sama stól í síðustu viku að reyna að réttlæta þögn þeirrar stofnunar um áburðarmálið.
Kannski er hægara um að tala en í að komast. En það er heilmikið til í því að lengi býr að fyrstu gerð. Ef götur Reykjavíkur hefðu verið hreinsaðar almennilega strax í upphafi hefði eftirleikurinn verið auðveldari, þó svo að snjór hafi haldið áfram að koma býsna jafnt og þétt af himnum ofan, eins og nefndur borgarstjóri benti nokkrum sinnum á, sjálfum sér og sínu liði til afbötunar. Það minnti mig á vertinn í Fornahvammi forðum, þegar þar snjóaði svo að gestir urðu að renna sér ofan um göng niður á dyrapallinn sem þó var fyrir dyrum sem opnuðust inn á aðra hæð. Einhver hafði orð á því við hann að hann yrði nú að gera hreint fyrir sínum dyrum og moka frá þeim. Þá tautaði vertinn ofan í bringu sér: Ég vil að sá taki þetta sem lét þetta þarna.
Auðvitað endaði þetta með að sá tók þetta sem hafði látið það þarna. Það fer oftast svo að sá vægir sem vitið hefur meira. Og á endanum fer það svo að sá sem snjóa lét í Reykjavík leysir Gnarrinn niður úr þessari snöru, og jafnvel fleiri.
það var rétt hjá Gnarrinum að ekki er alls staðar í grannsveitunum betur mokað en í Reykjavík. Ég læt fylgja hér eina eða tvær myndir sem ég tók hér úti fyrir mínum mosfellsku dyrum nú rétt áðan. Önnur er af götunni og sýnir hvernig stungið hefur verið einu sinni í gegnum skafl hér neðan við lóðina hjá mér. Ég býð ekki í það eftir næsta hvell því alltaf þrengist um þegar svona mjótt er skorið. Hin er nú bara af heimreiðinni hjá sjálfum mér og þar má sjá að ég hef nú bara tileinkað mér sömu viðhorf til snævar eins og vertinn í Fornahvammi forðum.
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 306295
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.