Að muna rétt – og muna rangt

Þegar ég var að vinna að Sögu bílsins á Íslandi talaði ég við margt merkisfólk sem fúslega rakti mér minningar sínar, fróðlegar og athyglisverðar. Stundum kom því miður í ljós að þær stóðust ekki. En þetta fólk var ekki að ljúga. Þessar minningar voru því raunverulegar þó þær stæðust ekki samanburð við aðrar heimildir, sambærilegar minningar fleira fólks, ritað mál og/eða ljósmyndir. Þær höfðu bara einhverra hluta vegna tekið sér bólfestu í minni fólksins og orðið því persónulegur sannleikur. Hafi ég ekki vitað það fyrir varð mér ljóst við vinnslu bókarinnar að minni fólks eitt út af fyrir sig er almennt séð ekki til að treysta, eins og það er dásamleg viðbót við það sem staðfesta má eftir öðrum leiðum.

Ágætur kunningi minn fjölfróður hringdi í mig á dögunum og benti mér á tiltekinn kafla í ævisögubók sem kom út 1947. Sú bók heitir Minningar Guðmundar á Stóra-Hofi og er eftir Guðmund Þorbjörnsson bónda þar og Eyjólf Guðmundsson frá Hvoli í Mýrdal. Sá fyrri var kunnur bændahöfðingi, félagsmálamaður og templari á sinni tíð, sá síðari bóndi, fræðimaður og rithöfundur, þekktust bóka hans kannski bókin Pabbi og mamma. 

Í kaflanum sem mér var sérstaklega bent á segir Guðmundur frá ferð sem hann hafði farið í febrúar 1912, frá Stóra-Hofi á Rangarvöllum þar sem hann bjó þá, upp að Hvanneyri til að sitja þar bændanámskeið. Þetta er á bls. 95 í téðri bók. Þar segir frá því, í þriðju persónu eins og Eyjólfur hafi skráð þennan kafla, að Guðmundur hafi farið ríðandi út að Ægissíðu og komist þaðan í bíl til Reykjavíkur. Í sömu andrá segir að á sama tíma hafi margir aðrir verið á suðurleið en bílakostur hafi verið takmarkaður „og urðu margir að fara á hestum út að Selfossi við Ölfusá."

En Guðmundur var sem sagt heppinn og komst í bíl frá Ægissíðu. Þaðan fóru hann og samferðamenn hans með skipi til Borgarness. „Hálka var og sleipt að ganga en enginn bíll fáanlegur. Urðu menn því að fara gangandi frá Borgarnesi..."

Stórmerki mega heita ef Guðmundur hefur þarna fengið bílfar frá Ægissíðu, því í febrúar 1912 var bílakostur svo sannarlega takmarkaður í landinu, aðeins einn bíll til og hann stóð ógangfær norður í Eyjafirði. Og engan skal undra að skart væri um bíla í Borgarnesi í febrúar 1912 því fyrsti bíllinn kom ekki þangað fyrr en 1918.

-- Þetta er aðeins eitt sláandi dæmi um falskar minningar sem orðið hafa á vegi mínum gegnum tíðina. Öll eigum við minningar frá löngu liðnum dögum um löngu liðna atburði. Sumar þeirra getum við staðreynt með samanburði við samferðafólk þess tíma - sé það enn tiltækt - eða með samanburði við ljósmyndir sem tengjast þessum atburðum. Öðrum minningum verðum við að láta okkur nægja að trúa með sjálfum okkur og kannski skemmta öðrum með, en þær geta aldrei orðið áreiðanleg sagnfræði.

Málfarsvilla löguð kl. 17.40.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband