3.11.2011 | 16:03
Vilhjálmur hengir bakara fyrir smið!
Lengi vel hélt ég að verkalýðsforkólfar hlytu og yrðu að vera skynugir og eiga auðvelt með að vinsa kjarnann frá hisminu. Svo ég ég í dag grein á pressunni punktur is að Vilhjálmur Birgisson verkalýðsforkólfur á Akranesi fer mikinn um ranglæti eftirlauna algjörlega með réttu en kennir lífeyrissjóðakerfinu um að mínu viti að mestu eða öllu með röngu.
Ranglætið felst hjá TR eða þeim sem leggja þeim reglurnar, sem sé Ríkinu og Alþingi, sem leggur svo á og mælir svo um að greiðslur úr lífeyrissjóði til eigenda sinna skuli koma að fullu til frádráttar frá því sem áður hér Almannatryggingar en heitir nú Tryggingastofnun ríkisins. Þó við höfum alla okkar starfsævi greitt líka skilvíslega til almannatrygginganna, ekkert síður en Lífeyrissjóðanna.
Lífeyrissjóðirnir voru í upphafi hugsaðir sem viðbót við lífeyrisgreiðslur úr almannatryggingum.
Alls ekki í staðinn fyrir þær.
Birgir fabúlerar eftir því sem ég best fæ séð um að þetta sé lífeyrissjóðunum að kenna. Ég tel svo ekki vera heldur ríkisvaldinu. Mismunuruinn er því ekki 11.006 krónur sem hann fengi minna sem ölmusumaður sem þæði öll sín eftirlaun frá ríkinu, heldur er hann í raun 167.165 krónum minni á mánuði sem hann ætti að fá frá ríkinu í ofanálag við það sem hann fær úr lífeyrissjóðnum.
Ef ríkið hefði ekki sífellt verið að kroppa í það sem ellilífeyrisþegum í rauninni ber og lagt var upp með þegar almannatryggingum var á komið annars vegar en lífeyrissjóðunum hins vegar.
Vilhjálmur og aðrir eiga því að beina sjónum og spjótum að ránum ríkisins, ekki lífeyrissjóðanna. Þó þar megi ugglaust eitthvað bæta líka.
Eins og ríkið hefur komið þessum málum núna eru ellilaun ekki laun eða lífeyrir, heldur ölmusa til þeirra sem engan útveg eiga af sjálfum sér.
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 306295
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sammála þér að sumu leyti SHH, en að öðru leyti ekki alveg. Við munum báðir eftir samningunum 1969, þegar samið var um stofnun lífeyrissjóða. Það fór ekki milli mála finnst mér - ég var í formennsku í stéttarfélagi á þessum tíma - að tilgangur með stofnun almennu sjóðanna væri að koma venjulegum launþegum, þ.e. öðrum en starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga, inn í samskonar eða svipað kerfi og þeim. Meginstefið var að með sjóðssöfnun í samtryggingarsjóð yrði fólki mögulegt með 40 ára starfstíma að ná 60% af meðallaunum þegar starfsævi lyki. Jafnframt var gert ráð fyrir að yrði fólk óvinnufært vegna veikinda eða slysa á eðlilegri starfsævi, þ.e. fram til 67 ára aldurs, yrði reiknaður réttur þess sá sami og það hefði unnið samfellt. Þessi síðasttöldu réttindi hafa reyndar verið skert mikið í tímans rás. Skilningur stéttarfélaganna var hinsvegar sá, að með tímanum og þegar sjóðirnir næðu fullu afli og allur almenningur væri kominn með lífeyrissjóðsaðild á allri starfsævinni, kæmi lífeyrir úr lífeyrissjóðum að langmestu ef ekki öllu leyti í staðinn fyrir lífeyri úr ríkissjóði. Það var túlkað svo fyrir okkur almennu félagsfólki í stéttarfélögum, að lífeyrir úr ríkissjóði yrði fyrst og fremst greiddur þeim, sem aldrei næðu að mynda réttindi í lífeyrissjóði, svo sem þeim, sem eru öryrkjar frá fæðingu eða áður en starfsævi getur hafist. Seinna kom svo til skjalanna hugmyndin um þriggja stoða kerfið, svokallað, þ.e. í fyrsta lagi lífeyrir úr samtryggingasjóði, í öðru lagi lífeyrir frá ríkissjóði til þeirra sem ekki gætu myndað réttindi og í þriðja lagi einskonar skyldsparnaður, þ.e. það sem við köllum í dag séreignarsjóði. - Svo má rekja söguna enn frekar, því margt er búið að gerast í tímans rás. Nefna má, að þegar svokölluð vinstri stjórn tók við eftir kosningarnar 1971, þá voru húsnæðislán nánast í skötulíki, þau fengu ekki allir og auk þess voru þau ansi lítil og hjálpuðu sáralítið við fjármögnun íbúðarhúsnæðis. Vinstri stjórnin gerði sér ljóst að sjóðsmyndun myndi verða talsverð í samtryggingarsjóðum verkalýðsfélaganna og ákvað að skylda sjóðina til að fjármagna Húsnæðismálastjórn, eins og apparatið hét þá, með því að kaupa skuldabréf stofnunarinnar. En verðbólgan setti hér strik í reikninginn. Þjóðinn lenti í stórum hremmingum sem samanstóð af þeim alþjóðlega vanda sem skapaðist í olíukreppunni fyrstu, sem leiddi af styrjöldinni fyrir botni Miðjarðarhafs og svo ekki síður hafði Vestmannaeyjagosið afgerandi áhrif. Verðbólgan fór á fulla ferð sem aldrei fyrr. Eftir miklar hremmingar og rifrildi varð svo niðurstaðan að dr. Ólafur Jóhannesson, þá forsætisráðherra, lagði fram frumvarp að svokölluðum Ólafslögum um verðtryggingu fjárskuldbindinga og launa. Ríkisstjórnin gat ekki staðið að frumvarpinu með honum, en það var samþykkt eigi að síður. Til verðtryggingar var sett upp og reiknuð svokölluð lánskjaravísitala og strangar reglur settar um hvaða lánsskjöl mætti verðtryggja og hvaða skilmálar mættu um þau gilda. Síðan gerðust tvö slys, sem ég vil kalla. Annað að lánskjaravísitalan var afnumin og hitt að verðtrygging launa var afnumin.
Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 3.11.2011 kl. 17:32
Takk fyrir þetta, Þorkell. Fræðandi klausa og segir sitt, svo langt sem hún nær. En þú nefnir hvergi hvernig ríkið hefur markvisst nagað almannatryggingarnar af ellilífeyrisþegum. -- Ég man ekki nákvæmlega þessa samninga 1969 sem þú nefnir, var þá kennari uppi í Borgarfirði og svolítið úr tengslum við þetta ferli. En ég man þegar lífeyrissjóður míns stéttarfélags var stofnaður, líklega árið 1961, og ég og starfsssystkini mín hvött til að ganga þegar í hann, að þá var þetta útmálað sem viðbót við þær almannatryggingar sem okkur sem þegnum þjóðríkisins væru tryggðar.
Sigurður Hreiðar, 3.11.2011 kl. 18:11
Vilhjálmur skautar nú létt yfir margt í þessari pressugrein sinni, t.d. örorkulífeyri, makalífeyri, barnalífeyri o.fl. Það sem mestu skiptir þó í því samhengi sem hann er að skrifa um er þetta: Ef við ímyndum okkur að engir lífeyrissjóðir séu til, en ætlumst til að halda engu að síður sama lífeyri og nú er, hvaðan eiga þá peningarnir að koma í það?
Tryggingastofnun er á þessu ári að borga út held ég um 50-55 milljarða í lífeyri, bætur o.þ.h., lífeyrissjóðirnir eru að borga um 70 milljarða. Þetta þýðir að ef við leggjum sjóðakerfið af, þarf að hækka skatta sem því nemur, til að halda sömu greiðslum. Treystum við pólitíkusum til að viðhalda því? En eftir tvo til þrjá áratugi, þegar lífeyrisþegar eru orðnir helmingi fleiri en nú (hlutfallslega), hvar á þá að fá peningana? Það er bara einn staður að sækja þessa peninga í: Vasi skattborgarans.
Annars, takk fyrir góða yfirferð Siggi, þú líka Þorkell!
Kveðja, ÞJ
Þórhallur Birgir Jósepsson, 3.11.2011 kl. 20:05
Komum þessu áfram, strákar! Vekjum umræðu. Skrifum greinar, bloggum, látum hvína í okkur! Ég sendi pressunni beint minn pistil þó margt í honum sé ugglaust gagnrýni vert er „bottom line“ samt rétt.
Takk fyrir að vera með, báðir tveir.
Sigurður Hreiðar, 3.11.2011 kl. 20:20
Ja, SHH, ég taldi mig einmitt vera að gera grein fyrir því að það hefði alla tíð staðið til að lífeyrisgreiðslur til þeirra, sem væru svo hamingjusamir að geta haft starfsorku í allt að 40 ár, kæmu að uppistöðu til úr lífeyrissjóðum og þegar nánast allur vinnumarkaðurinn væri búinn að greiða í lífeyrissjóð í 40 ár myndi ríkissjóður/skattgreiðendur ekki greiða öðrum lífeyri en þeim, sem ekki gætu myndað slíkan sjóð. Það er orðið nokkuð langt síðan að það fólk, sem horfir fram á veginn, taldi sig sjá fyrir að það væri ekki svo ýkja langt í að gegnumsstreymislífeyrir gæti ekki gengið upp, lífaldur og fæðingartíðni stefndi í að það yrðu einfaldlega orðnir of fáir á vinnumarkaði um og upp úr 2020 hér í Evrópu, að skattprósenta yrði að vera fáránlega há til að slíkt gengi upp. Þessvegna hafa menn horft til þess að skylduaðild að samtryggingarsjóði myndi tryggja að hver kynslóð myndaði sinn lífeyri, reikningurinn yrði ekki sendur á framtíðina. Alltof mörg Evrópulönd og sjálfsagt fleiri standa nú frammi fyrir óleysanlegum vanda af þessum sökum, sem enginn pólitíkus þorir að taka á. Hinsvegar hafa lífeyrissjóðir eins og einstaklingarnir orðið að taka á sig ótrúleg skakkaföll frá og með hruni, sem hefur rýrt getu þeirra til greiðslu lífeyris. Það er í sjálfu sér ekki beinlínis lífeyrissjóðunum að kenna. Það, hvernig þeir ávöxtuðu fé það sem þeim var trúað fyrir, var samkvæmt reglum, sem FME setti, eins og því bar samkvæmt lögum. Tiltekinn hluta mátti hafa á almennum innlánsreikningum, annan hluta í innlendum hlutabréfum, annan í erlendum hlutabréfum, skuldabréf sveitarfélaga máttu nema ákveðinni prósentu, sjóðfélagabréf annarri o.s.frv. FME hafði svo eftirlit með því að eftir þessum reglum væri farið. Þetta hefði vel getað farið vel ef FME hefði staðið sig á öðrum sviðum og ekki leyft fjárhættuspilurum og siðblindum óþokkum að beita klækjum sínum og prettum til að féfletta alla þjóðina. Við erum oft að tala um hrunið eins og náttúrukatastrófu, sem það var alls ekki. Hrunið var mannaverk eins og allt annað á þessu sviði, það voru nefnilega ákveðnir aðilar, sumir innlendir aðrir erlendir, sem græddu á því. Ef einn tapar þá græðir alltaf einhver annar. Peningar verða aldrei að engu.
Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 4.11.2011 kl. 11:15
Bestu þakkir fyrir viðbótina, Þorkell. Þegar ég gekk í Lífeyrissjóð Blaðamanna 1961 var þeim forsendum einkum haldið að okkur að hann væri viðbót við lögskildar bætur frá Almannatryggingum. Þá var þátttaka í lífeyrissjóði ekki skylda og mér er nær að halda að svo hafi ekki verið fyrr en um 1980, þó ég sé ekki ártalafróður. Og ég hélt að skylduaðild að samtryggingarsjóðnum Almannatryggingum, síðar Tryggingastofnun ríkisins, ætti að tryggja að ég fengi minn tilskilda lífeyri að æviverki loknu, burtséð frá því hvort ég ætti í fyrirhyggjusjóði þar fyrir utan sem verið hefði að mínu eigin frumkvæði.
Alla mína ævi hef ég átt í vandræðum með að skipuleggja líf mitt fjármálalega séð fram í tímann, því forsendum hefur í sífellu verið breytt og svo er enn. Kaupi og kaupmætti er breytt í sífellu, gengi gjaldmiðilsins og annars eftir því. Og nú þegar ellin er komin í hús er hagsýni einstaklingsins látinn rýra ellilífeyri hans ofan í ekki neitt.
Sigurður Hreiðar, 4.11.2011 kl. 11:42
Skylduaðild félaga í stéttarfélögum í viðkomandi greinum var strax við upphaf sjóðanna 1970. Skylduaðild allra að lífeyrissjóði kom síðar, það er rétt. Þá voru menn búnir að átta sig á þeim vanda, sem ég drap á fyrr í dag um að gegnumstreymiskerfi gengi ekki upp. Því yrði að skylda alla til að vera í lífeyrissjóði. Hér höfum við hinsvegar ekki komið að því máli sem snýr að þeim ríkisstarfsmönnum og starfsfólki sveitarfélaga sem er í svokölluðum B-sjóði, þar sem ábyrgð ríkisins á 60% af staðgengilslaunum er í fullu gildi. Sá reikningur lendir á skattgreiðendum með sívaxandi þunga næstu tuttugu árin eða svo, en þá má reikna með að fari að draga úr greiðslubyrðinni.
Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 4.11.2011 kl. 20:41
Upphaf sjóðanna var fyrir 1970. Ég gekk í lífeyrissjóð BÍ 1961. Réttindin voru flutt í Lífeyrissjóð starfsmanna SÍS 1969 þegar ég skipti um vinnu og vinnustað. Fékk ekki að færa þau til baka þegar ég varð aftur Blaðamaður 1974. Konan mín gegndi ýmsum störfum án skyldu um lífeyrissjóð þar til hún varð starfsmaður ríkisstofnunar öðru hvoru megin við 1990. Sýpur seyðið af því nú.
Sigurður Hreiðar, 4.11.2011 kl. 23:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.