25.6.2011 | 14:34
Hvar býr frekjan?
Það er náttúrlega ekkert frekjulegt að spilla fyrir vinnuveitendum sínum í einn stað og þjóðinni í heild í annan stað með því að skemma fyrir fluginu á háannatíma þess, mesta ferðamannatímanum í þjóðlífinu. Nei, það er það auðvitað ekki -- séð með eiginhagsmunaaugum FÍA.
Kjarasamningar hafa verið lausir síðan í janúar. Hvers vegna drifu menn sig ekki þá í slaginn strax? Hvað átti það að þýða að halda áfram að fljúga á lúsarlaunum langt fram á sumar? Gæti það haft eitthvað með það að gera að verkföll og skæruverkföll hafi ekki haft alveg eins mikil skemmdaráhrif þá eins og þau hafa á miðju sumri?
Hvar býr frekjan í þessu máli?
Það hefur löngum þótt varasamt fyrir þá sem í glerhúsi búa að kasta steinum.
Einstaklega frekjulegt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Það hefur nú komið fram í flestum fjölmiðlum að yfir tuttugu fundir hafa farið fram síðan á síðasta ári án árangurs.
Preacher (IP-tala skráð) 25.6.2011 kl. 15:27
Já, takk, nafnleysingi. En af hverju fyrst núna að efna til skemmdarverka?
Sigurður Hreiðar, 25.6.2011 kl. 16:10
Mér þætti gaman að vita hvaða stétt í verkfallshugleiðingum fyrr og nú hefði ekki kosið að fara í aðgerðir þegar verkfallsvopnið er hvað beittast. Fyrir utan það að þá er þetta einungis yfirvinnubann. Í stuttu máli þýðir það að menn taka þá pólinn í hæðina að vera heima hjá sér þegar þeir eiga frí í stað þess að eyða frídögum sínum í að vera í vinnunni. Menn eru nógu lengi að heiman fyrir því. Það að þurfi að fella niður flug þýðir einfaldlega að Icelandair er undirmannað, eitthvað sem hefur verið bent á aftur og aftur. Að mér skilst þá var síðasta sumri reddað á endalausum frí kaupum að hálfu Icelandair. Held að menn hafi ekki verið tilbúnir í að kveðja fjölskyldu sýna að vori til þess eins að sjá hana aftur að hausti þetta sumarið. Það er ekkert að því að segja "nei takk, ég vil vera í fríinu mínu heima með fjölskyldunni"
Preacher (IP-tala skráð) 25.6.2011 kl. 20:10
Þú ert við þitt heygarðshorn, nafnleysingi (=hugleysingi), og þú um það. En það er ekki stórmennska að taka harma sína út á saklausu fólki sem á þess engan kost að semja við þá sem kjósa að beita verkfallsvopni yfirleitt en eru fórnarlömb og peð í þessum ljóta leik. Menn kunna að hafa haft samúð með stéttum sem lepja dauðann úr skel en þó grunar mig að samúðin sé ærið farin að þynnast yfirleitt og sé ansi rýr þegar hálaunastéttir eiga í hlut.
Sigurður Hreiðar, 25.6.2011 kl. 22:17
Þegar ég las fyrirsögnina datt mér nú fyrst í hug Jóhanna Sigurðardóttir.
Ragnar Gunnlaugsson, 26.6.2011 kl. 12:06
Já, takk, Ragnar. Ég veit ekki heldur hvar hún býr.
Sigurður Hreiðar, 26.6.2011 kl. 12:17
Einkennileg hugsun að líta á verkföll þeim augum að þau séu frekja sem spillir fyrir vinnuveitendunum. Þau bitna óhjákvæmielga alltaf á þeim og líka þriðja aðila sem má þá kalla fórnarlömb. Kannskoi er það almennt ranglátt en ekkert meira núna en í öðrum kjaradeilum. Reyndar eru Icelandair líka hluti af deilunni og mætti kannski beina smá gagnrýni að því félagi líka. Svo finnst mér athugasemdir Preachers við þessa boggfræslu í góðu lagi þó nafnlausar séu. Hann er kurteis og málaefnalegur. Það er ekki hægt að afgreiða slík sem hugleysi.
Sigurður Þór Guðjónsson, 26.6.2011 kl. 15:45
Það sem ég afgreiði sem hugleysi, nafni sæll, er að koma ekki fram undir nafni þegar komið er fram á annað borð. Það jafngildir því að snúa rassi í viðmælanda sinn. Um verkföll: Þau kunna að hafa átt rétt á sér meðan „lágstéttir“ voru kúgaðar. En með batnandi siðferði og samskiptum á að vera hægt að komast fram hjá þeim, auk þess sem vafasamt má telja hvort þau skila þeim árangri fyrir þá sem í verkfall fara að þau séu réttlætanleg. Það er dýrt fyrir launafólk (stéttarfélög þess vegna) að fara í verkfall og einhverjar prósentur sem með þeim „vinnast“ eru lengi að vinna sig upp. Það sem ég tel óviðunandi við verkföll er hversu þau bitna á þeim sem enga aðild á að málinu og enga möguleika hefur til milligöngu eða að hafa á annan hátt áhrif á gang mála. Það er hrein gíslataka og óviðunandi, sérstaklega þegar hálaunastéttir eiga í hlut.
Sigurður Hreiðar, 26.6.2011 kl. 16:19
Víst eru flugmenn með 10 - 20 ára starfsreynslu hjá Icelandair með virkilega góð laun. En komið hefur fram að byrjunarlaun eru um 500.000 kr. Þegar menn komast að sem flugmenn með þessi laun eru þeir búnir að kosta nám sitt upp á sjálfsagt 20 milljónir sem nota bene er að litlu leiti námslánahæft. Og það er nú ekki eins og menn læri flug og beðið sé eftir þeim að taka til starfa. Fyrstu árin fara í hark í kennslu og flug hjá ,,litlu flugfélögunum" og þeir sem eru heppnir og sjálfsagt þeir sem hafa gott orð á sér sem góðir flugmenn geta verið komnir í vinnu hjá millilandaflugfélögunum kannski milli 25 og 30 ára aldurs, og mega fljúga sem atvinnuflugmenn til 65 ára aldurs ef ég man rétt. Þannig að þeir hafa kannski 35 ár til að greiða fyrir námið dýra.
Gísli Sigurðsson, 26.6.2011 kl. 22:54
Takk fyrir innlitið, Gísli.
Já, ég dáist að fórnfýsi þessara manna. En -- voru þeir ekki að láta drauminn rætast með því að fara í þetta fokdýra nám? Eða gerðu þeir það af einstakri fórnarlund? Fórna sér fyrir samfélagið?
Sigurður Hreiðar, 27.6.2011 kl. 08:29
Að sjálfsögðu má segja að menn séu að láta drauminn rætast, en það sama má örugglega segja um aðrar atvinnugreinar. Stráka (og stelpur) dreymir um að gera við bíla, verða slökkviliðsmennn og hitt og þetta. Eiga þeir þá bara að þiggja það sem að þeim er rétt vegna þess að þá langaði til að starfa við þetta þegar þeir voru guttar?
Til viðbótar því sem ég sagði í fyrri færslu, eru margir flugliðar, þá á ég við bæði flugmenn og flugfreyjur og flugþjónar með mjög ótrygga vinnu. Hafa kannski þriggja til fjögurra mánaða vinnu á ári. Mér skilst að hluti af þessari deilu snúi að atvinnuöryggi þessarra stétta.
Gísli Sigurðsson, 27.6.2011 kl. 11:02
Ég þarf meira til að láta sannfærast um fórnfýsi flugmanna, Gísli, heldur en þetta, og hafa samúð með því að þeir taki ferðamannaþjónustuna og þar með þjóðlífið meira eða minna í gíslingu til að knýja sitt fram. Samningar hafa verið lausir síðan í janúar og samningasamræður voru hafnar áður en þeir runnu út. Hvers vegna var ekki farið í gíslatökuna þegar er samningar runnu út? Var það ekki einfaldlega vegna þess að slagkrafturinn var því meiri því meira skemmdarverk sem hægt var að gera á aðal ferðamannatímanum?
Ég verð ekki var við að þær stéttir sem þú nefnir hér að ofan sem hugsanleg draumastörf einhverra sinni gíslatöku af sama tagi og flugmenn gera nú. Margar stéttir hafa ekki þann sama slagkraft í gíslatökunni eða þá að þær kjósa að fara aðrar leiðir sér til hagsbóta, sem skemma ekki eins fyrir öðrum í leiðinni.
Við þetta má því bæta að ég forakta verkföll hverjir sem í hlut eiga. Og því meir sem stéttirnar eru tekjuhærri. Og yfirvinnubann er verkfall svo langt sem það nær. Mér skilst (svo ég noti orðalag þitt hér að ofan, og í sama tilgangi) að þeir séu ekki allir jafn kátir með það, enda minna sem í þeirra hlut kemur þegar þeir missa yfirvinnuna. Sem er ómissandi hluti af laununum. Ef þeir misstu varanlega þann möguleika til tekjuhækkunar, myndu þeir þá ekki verða að krefjast hærri launa?
Sigurður Hreiðar, 27.6.2011 kl. 11:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.