Ekki að öllu leyti félegur hópur

Merkilegt hve þjóðin er fundvís á málefni sem skyggja á öll önnur. Nú er það álit Hæstaréttar að kosning til stjórnlagaþings sé ógild og liggja til þess tilgreindar ástæður, lítilvægar flestar að mínum dómi nema helst þetta með rekjanlegu kjörseðlana. En ég set 144 punkta spurningarmerki við hvort sá upptaldi tittlingaskítur um annmarka á kosningunum eigi að vera nóg til að ógilda niðurstöðu þeirra.

En það tjáir ekki að deila við dómarana jafnvel þótt þetta sé ekki dómur heldur álit. Byggt á lögum um alþingiskosningar skilst mér, þótt þetta séu alls ekki alþingiskosningar heldur mun viðurhlutaminni samkoma, ráðgefandi „þing“ sem á svo að leggja tillögu að nýrri stjórnarskrá fyrir alþingi sem velur og hafnar, breytir og bætir, þangað til út verður komin sú uppsuða sem fjórflokkurinn eða meirihluti á hans vegum sættir sig við.

Í morgun heyrði ég í mínum gamla söngbróður Birgi Guðmundssyni á Akureyri í útvarpi allra landsmanna þar sem hann taldi óráð að hinir ógilt kjörnu stjórnlagaþingmenn yrðu hreinlega skipaðir stjórlagaþingnefnd og látnir ljúka því hlutverki sem þeir voru þjóðkjörnir til -- af því að þá væri þeir ekki lýðræðislega kjörnir heldur pólitískt skipaðir. Þetta þykir mér bitamunur en ekki fjár, pólitíkusarnir væru þá að skipa hina lýðræðislega kjörnu til að gera það sem þeir voru lýðræðislega kjörnir til.

Ekki svo að skilja að mér þyki þetta að öllu leyti félegur hópur. Margir eru þó góðir í hópnum og hafa maklega í hann valist, en þar má líka sjá of mörg andlit lýðskrumara sem aðeins hafa náð kjöri fyrir það hve duglegir þeir hafa verið gegnum tíðina að gjamma það sem fer vel í eyrum þeirra sem eru lítið fyrir að hugsa djúpt og sjá í gegnum gasprið. En þetta var það sem þjóðin

-- eða sá hluti hennar sem nennti að leggja sig eftir að skrifa nokkrar fjögurra stafa tölur á blað --

valdi og þjóð fær alltaf þá valdsmenn sem hún á skilið.

Eftir stendur að þegar stjórnlagaþing (hvernig sem það á endanum verið valið eða skipað) leggur sína tillögu fyrir alþingi verða það hinir lýðræðislega kosnu fulltrúar okkar í löggjafarsamkundu þjóðarinnar sem véla, velja og hafna. Endanleg stjórnlagabreyting mun því hvernig sem allt veltist fara fram í því sem einn ógilt kjörinn stjórnlagaþingmaður kýs, hvar sem hann kemst í fjölmiðla, að kalla drungaleg, reykfyllt bakherbergi fjórflokksins. Hvaðan sem sá reykur á að koma.

Um flest virðist mér sem breyting stjórnarskrár munu felast í að gera hana skorinorðari og skýrmæltari. Ég bauð mig ekki fram til stjórnlagaþings og hefði heldur ekki náð kjöri. En ég býð mig hérmeð fram til þjónustu ef í lokin vantar mann til að gera óskýran texta skýran og augljósan -- í því hef ég ansi langa reynslu. Líka því að gera texta svo hæfilega óskýran að menn geti teygt hann og togað í því skæklaskaki sem er óumdeilanleg þjóðaríþrótt okkar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Sæll. Ef það er rétt sem sagt er að hvorki sé farið eftir lögum né stjórnarskrá nema þegar fólki hentar skiptir þetta hvort tveggja kannski ekki mjög miklu máli. Ætli öll lög, sem sett hafa verið, hafi ekki einhvern tímann verið brotin? Trúlega er þó hætt að brjóta þau lög að hestar skuli ekki skíta í Austurstræti?

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 28.1.2011 kl. 09:28

2 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Í hugum margra er að þjóðin eigi ekki lengur neinn Hæstarétt. Er hann  í vasanum á Sjálfstæðisflokknum?

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 1.2.2011 kl. 21:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband