17.1.2011 | 19:53
Situs á Hostes og Custos en Portus á Totus og Ago og Totus á Hring
Þvílíkur massi af lesmáli berst inn um bréfarifuna frá fimmtudagskvöldi til laugardagsmorguns að það þarf einbeittan vilja og gott næði til að pæla nokkurn veginn í gegnum það allt. Hvað þá ráða krossgáturnar sem þó er alltaf freisting.
Sem betur fer er þetta allt heldur létt í maga og ekki mikið til að leggja á minnið heldur. Þó var ein klausa í blöðunum núna þessa blaða-langhelgi sem fór að krauma í hausnum á mér og það svo að ég gat ekki á mér setið að leita hana uppi. Og fann hana -- í föstudagsútgáfu Fréttablaðsins, bls. 18. Svo látandi:
Það er ekki einfalt mál að reisa og reka tónlistarhús, eins og sést af skipuriti hinnar risavöxnu Hörpu í höfninni í Reykjavík. Harpa er rekin af Austurhöfn TR ehf., sem er að 46 prósentum í eigu Reykjavíkurborgar og 54 prósentum í eigu ríkisins. Austurhöfn TR ehf. á Portus og Situs. Portus er móðurfélag Hörpu en Situs er félag um lóðaréttindi. Situs á Hostes og Custos. Hostes er félag utan um hótel en Custos heldur utan um bílastæðahús. Portus á Totus og Ago. Totus á Hring. Hringur rekur greiðslumiðlun.
Ég er nú barasta aldeilis koks. Harpa er rekin af Austurhöfn TR ehf (TR þýðir varla Tryggingastofnun ríkisin?) sem á Portus en Portus er móðurfélag Hörpu! Svo koma Situs og Custos og Hostes og Totus og Ago og loks Hringur. Ætli hann sé utan um þetta allt?
Það er eins gott að öllum þessum usum, esum og osum komi bærilega saman svo ekki fari allt í hár og eitt loki ekki á annað. Eða kannski eru þetta allt þumlar á sama vettlingi -- eða bara fingur á sömu hendi? -- Er ekkert eftirlit með svona skollaleik?
Ég veit ekki um aðra, en svona skollaleikur þýðir í mínum huga að þessi blessuð Harpa verði aldrei nema skelin -- og þá hörpuskel -- þó kannski takist í fyrstu að halda í henni fáeina tónleika og kannski einhver apaspil milli þess sem menn tylla sér inn í hefðarsali Múlakaffis í húsinu að fá sér molasopa. Nema í millitíðinni takist að ná utan um alla þessa usa og osa og gera einn belgvettling úr öllu saman.
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.