Að fljúga með Iceland Compress

Í dag eru sléttir tveir mánuðir síðan ég bloggaði síðast. Þar kemur ýmislegt til. Þar ber hæst að ég brá mér til útlanda á tímabilinu og nú, eftir að ég hætti að eiga frí sérstaklega eins og annað fólk af því að ég á yfirleitt frí alla daga nema frá því sem ég vel mér sjálfur að dútla, finnst mér mest frí í því fólgið að skilja tölvuna eftir heima og varast netkaffi og annan aðgang að tölvum þar sem ég er að fríast.

Svo ég segi lítillega nánar frá þessu skruppum við hjón til Tenerife sem á máli meintra frumbyggja staðarins gvansanna hét Hvítafjall og dró þá nafn af hæsta fjalli Spánar El Teide sem þessi eyja skartar og er oftast með hvíta húfu. Að vanda var gott að koma þarna suðrettir og þó ekki væri sól upp á hvern dag og jafnvel þrumuveður með tilheyrandi úrhelli einn sólarhring gerði það bara ekki nokkurn skapaðan hlut til; þarna er hlýtt jafnan (5° dagshitamunur til jafnaðar á heitasta og kaldasta tíma ársins) og loftið afskaplega tært og gott að anda að sér, gönguleiðir greiðar og fríðar í allar áttir og fleira við að vera við fólk eins og okkur sem kann ekki að liggja í sólbaði nema sosum eins og klukkutíma í einu söku sinnum.

Verst hvað flugið tekur langan tíma. Fimm klst og tíu mínútur vorum við suður eftir og þó andskoti þröngt sé milli sæta í vélum Astraeus flugfélagsins sem flýgur fyrir Iceland Express (er þetta ekki einhver misskilningur, annars, miðað við sætaþrengslin ætti ferðaskrifstofan að heita Iceland Compress) var svo fátt á suðrettirleið að við gátum látið fara vel um okkur og jafnvel blundað. Til baka var farið með Easy Jet til Gatwick sunnan við London og þaðan með Iceland Compress heim; allt í góðu með það en hefði mátt láta okkur (11 manns samtals) vita að IC flýgur frá Terminal 2 meðan EJ notar annan terminal og ca. 4 kílómetra gangur á milli. Á leiðinni tékkar maður sig inn í UK og verður svo að tékka sig þaðan út aftur þegar Terminal 2 er fundinn. En svona tvískipt heimferð tekur eitthvað um 12 tíma alls.

En hvers vegna er ég að segja ykkur þetta allt núna? Jú, vegna þess að í gær hófust sýningar á einhverju leiðinlegasta sjónvarpsefni sem RÚV hefur í boði yfir árið, svokallaðri söngvakeppni. Nógu leiðinleg eru lögin og lítil tilþrif í kringum þau þó ekki komi til afskaplega innantómt og uppkreist fjas um lagasmiðina inn á milli laganna. Mikið skelfing vorkenni ég þessu fallega og sjálfsagt vel gefna fólki sem þarf að standa frammi fyrir alþjóð og bulla með bros á vör!

Það varð til þess að ég fór að fletta sjónvarpsrásunum og þó ég hafi aðgang að þeim allnokkrum var sosum hvurgi neitt skárra. Og þá var komið að því að setja Bond-mynd í tækið: Die Another Day -- og hamagangurinn þar brást ekki. Þessa mynd sáum við í sjónvarpi á Tenerife með spænsku tali sem kom að litlu haldi, þau 10 (eða kannski 20?) orð sem ég kann í spænsku dugðu hvergi nærri til svo ég lét eftir mér að kaupa diskinn þegar ég rakst á hann í Elko á dögunum.

Það var þetta sem átti að vera mórallinn í bloggi mínu í dag: Eigið til vara góðan mynddisk að bregða í tækið meðan þessi ósköp sem heita Söngvakeppni sjónvarpsins gengur yfir þetta árið! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 306295

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband