Á handahlaupum skáhalt yfir landið

Í dag er á bls. 2 í Mogga sagt frá tveimur mönnum sem gengu skáhalt yfir landið milli suðvestur -- og norðvestur-horna þess, í áföngum að vísu og stundum með stefnu í þessa áttina og stundum í hina. Það læt ég mér að sjálfsögðu í léttu rúmi liggja en er ekki alveg laus við að öfunda stundum fólk sem hefur döngun til að leggja í svona göngur, þó ég nenni varla að ganga bæjarleið hérna heima hjá sjálfum mér.

En mér þótti á einum stað kyndugt orðalag í frásögninni af ferð þessara tveggja manna, kvenmanns og karlmanns. Það er þar sem sagt er: „Þau hófust handa í júlí við að ganga…“ Hmm, hugsaði ég, það væri nú bragð að þessu er þau hefðu farið á handahlaupum um landið. En þegar ég las áfram sá ég að aðeins var átt við að þá gengu þau fyrsta áfangann, tiltekinn vegarspotta, og ekki annað að sjá að það hafi verið venjulegt göngulag og fæturnir bornir fyrir.

Kannski er þetta eðlilegt orðalag, þó mér finnist það skringilegt. Kannski þó ekkert verra en þegar maður vill fara að komast af stað og segir við félagann: „Eigum við ekki að fara að koma?“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Ef eitthvað getur sigið upp á við er örugglega hægt að hefjast handa við hvað sem er. Og má ekki af þessu tilefni segja að einhver standi á því fastar en höndunum (í stað fótunum) að eitthvað sé svona eða hinsegin (úr því að menn geta staðið bæði á höndum og fótum)?

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 6.8.2010 kl. 17:32

2 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Mér er þetta nú ekki mjög í hendi fast…

Sigurður Hreiðar, 6.8.2010 kl. 17:45

3 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Kannski ekki heldur í fæti?

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 6.8.2010 kl. 18:12

4 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Gangan mikla skáhallt yfir Ísland

Þetta fann ég á netinu og sendi þér til gamans. Taktu eftir ellunum tveimur í skáhallt.

Fyrir skömmu gekk Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, skáhallt norðaustur yfir Ísland, frá Reykjanestá að Langanesfonti.
Göngur yfir hálendi Íslands voru forfeðrum okkar brýn nauðsyn en eru nútímafólki íþrótt og gleðigjafi. Reynslan sýnir að þeir sem taka að kanna hálendið sækjast eftir gönguferðum um það þegar þeir eiga möguleika.

Einn úr hópi göngugarpa Íslendinga nú um stundir er Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna, sem nýlega hélt upp á fimmtíu ára afmæli sitt.

Þetta er tekið úr mbl.is sunnudaginn 7. ágúst, 2005

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 6.8.2010 kl. 19:14

5 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Gaman að þessu, BenAx. Ég var einmitt að velta fyrir mér ellunum í skáhallt. Þú ert gamall prófarkalesari, ef ég man rétt. Hvort er réttara? É er til í ýmsar pælingar í þá veru.

Sigurður Hreiðar, 6.8.2010 kl. 21:17

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Skáhalt eða skáhallt. Mjög athyglisvert. Mér finnst skáhalt vera réttara. Veit ekki af hverju. Sjónminni? Þegar e-ð hallast er það skáhalt. Þetta má eflaust deila um. Ef til vill er samt rökréttara að hafa ellin tvö.

Sæmundur Bjarnason, 7.8.2010 kl. 01:06

7 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Í orðabók er gefið orðið skáhallur sem þýðir á ská og verðum við því að sættast á að skáhallt sé með tveimur ellum.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 7.8.2010 kl. 11:47

8 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Fellst á þá sátt. Þykir það líka fallegra svoleiðis. Þá skulum við hefjast handa við að ganga -- frá því þannig. Orð verða fallegri þegar þau eru rétt rituð.

Sigurður Hreiðar, 7.8.2010 kl. 12:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband