26.7.2010 | 10:56
Góð kona í rútu
Notfærði mér þjónustu strætó í morgun. Þurfti ekki að hanga eftir honum nema sosum 20 mínútur. Gerði ekki stórt til í veðurblíðunni (þó sólin hafi verið bak við ský).
Vagninn var var framleiðandamerktur Irisbus. Ég hef komið þar á hólinn sem slíkir vagnar eru framleiddir í Suður-Frakklandi og séð hvernig yfirbyggingarnar eru límdar saman og settar i bað svo þær ryðgi síður. Á um það allt saman ágætar minningar. Upprunalega var sú verksmiðja sett saman til að framleiða hjólbörur, ef ég man rétt.
En mikið fjandi eru sætin vond! Látum vera þó þau séu glerhörð, en þau eru svo kröpp að ég var eftir fáeina kílómetra búinn að fá illt í mjaðmirnar og mjóbakið og langaði mest til að standa upp mér til heilsubótar. Kunni þó ekki við það. Hinir farþegarnir tveir hefðu getað haldið mig skyggnan og ímyndað sér að ég sæi draug í hverju sæti svo ég yrði þess vegna að standa.
Eins og konan hans Palla Vald sem bograði sig alla leið í aftasta sæti í Mosfellssveitarrútunni forðum og brosti og nikkaði í hvert sæti -- til þeirra sem hún sá sitja þar en engir aðrir.
Það var held ég góð kona.
Leiðrétt vegna villu kl. 18.12
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.