Að bera sig yfir storð eins og mörgæs

Nú á dögunum gat ég ekki orða bundist yfir sérlega klaufalegu orðalagi í Moggafrétt um dreng sem var fastur í kviksyndi upp á öðrum fæti upp í mitti. Gat ekki stillt mig um að gera samanburð á sjálfum mér en á mér ná fæturnir bara upp í klof, svo taka við mjaðmir áður en kemur að mittinu (eða þeim stað þar sem mitti er á þeim sem ekki eru með bumbu).

Nú ber svo við að ég fæ athugasemd frá Þorsteini. Hvaða Þorsteini hef ég ekki grænan grun um, því hann er óskilgreindur nema IP tala er sögð skráð. Þó hygg ég að ekki muni leyna sér hvaða Þorsteinn þetta er ef maður sér hann, því hann kemst svo að orði: „Þar sem ég þekki til nær fóturinn ekki ofar en að ökkla.... "

Ef einhver rekst á Þorstein þennan sem hlýtur að bera sig yfir storð með svipuðum hætti og mörgæsir gera bið ég að heilsa honum.

Í athugasemd við sama bloggi spurði ég hann (hef ekki fengið svar ennþá) á hvaða skanka hann væri með kálfa, hné og læri. Og hvort hann kannaðist ekki við konur með fagra fætur - ef svo, hvort fegurðin næði ekki nema upp að ökla.

Þá tók sig til Sigurður Jónsson (hve margir ætli gegni því nafni með þjóð vorri?) og vildi meina að konur hefðu bara fagra leggi. Þetta varð mér eilítil umhugsun, því mér hefur lengi þótt þetta leggjatal um limafagrar konur bera keim af klaufalega þýddri ensku sem notar orðið „leg" fyrir fót. Meira að segja „upper leg" fyrir læri hjá þeim sem eru of teprulegir til að nota orðið „thigh" sem amk. í sumum pörtum hins enskumælandi heims þykir víst frekar klúrt. - En, amk. hjá minni kynslóð þótti sómi að konum sem höfðu fallega fætur og þá vorum við ekki bara að einskorða okkur við ketstykkið aftan a leggnum. Við dáðumst að fallegum ökla, fallegu hné og ekki síst fagursköpuðu læri.

Sumir okkar gera þetta enn.

En þá er að grípa til orðabókarinnar og gæta að hvernig fótur er þar skilgreindur. Tekur nú ekki betra við, því fótur er bara annar tveggja ganglima tvífætlinga eða fjögurra ef ferfætlingar eiga í hlut.

Er nú ekki einhver orðhagur blogglesandi sem getur með snjöllum og skilvirkum hætti skilgreint hvað er fótur? Og, ef honum er eins farið og mér, að hafa fót alla leið upp í klof, haft yfir helstu kennileiti fótarins, frá il og upp úr? Og - eru ekki enn til konur með fallega fætur?

Hinum get ég ekki annað en vorkennt, sem verða að kjaga á fótum sem ná ekki nema að ökla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér finnst ekki einu sinni þess virði að efna til orðaræðu um þetta mál þar sem við eigum hið ágæta og alíslenska orð, "ganglimur", um þetta fyrirbæri sem margir vilja skilgreina sem þrjá líkamshluta, þ.e. "fót, legg og læri".

Sætti maður sig við orðið "ganglimur" sem samheiti yfir hitt þrennt má einu gilda hvort sumir telji fótinn ná upp í ökkla eða ofar, svo framarlega sem allir eru sammála um að ganglimurinn nær í heild sinni upp undir búk.

Um leið verður maður auðvitað að sætta sig við að konur séu með "fagra ganglimi", enda er þá meint að allt þrennt, fótur, leggur og læri, sé fagurt ásýndar.

Bendi líka á að konur eru sagðar "fagurlimaðar", en ekki "fagurfættar", þótt það geti í sjálfu sér verið alveg rétt.

Þeir sem vilja samt segja, jafnvel meina, að "fætur" nái upp í klof verða þá bara að fara villu síns vegar og um leið á mis við að nota hið fagra orð "ganglimur", sem að sjálfsögðu er mun kjarnyrtari íslenska.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 8.7.2010 kl. 02:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 306295

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband